Úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur lokið

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Úttektarnefnd Orkuveitu Reykjavíkur hefur skilað Jóni Gnarr borgarstjóra niðurstöðum úttektar á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu OR og hvernig staðið var að mikilvægum skuldbindandi ákvörðunum. Niðurstöðurnar verða kynntar opinberlega 10. október nk.

Jón Gnarr borgarstjóri sendi frá sér yfirlýsingu vegna þessa. Þar kemur fram hann hafi óskað eftir því við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að auka eigendafundur verði boðaður 10. október. „Í beinu framhaldi af þeim fundi verður boðað til kynningarfundar með borgar- og bæjarfulltrúum ásamt stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem úttektarnefndin gerir grein fyrir niðurstöðum sínum og skýrslan verður afhent.“

Í kjölfar þess fundar mun fjölmiðlamönnum gefast kostur að spyrja nefndarmenn og fulltrúa af eigendafundi út í niðurstöðurnar. 

Í erindisbréfi úttektarnefndarinnar segir meðal annars um hlutverk hennar: „Að gera óháða úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Úttektin nái allt frá stofnun fyrirtækisins og beinist sérstaklega að því að skoða hvernig staðið var að mikilvægum skuldbindandi ákvörðunum, þ. á m. aðkomu eigenda, stjórnar og stjórnenda að þeim.

Einnig mun úttektin beinast að vinnubrögðum stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjórnar og samvinnu þeirra í millum. Þá verða ýmsir þættir innra eftirlits fyrirtækisins metnir og áhættustýring þess skoðuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert