Innbrot og skemmdarverk á Króknum

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Brotist var inn í aðstöðuskúr Skotfélagsins Ósmanns á Sauðárkróki í nótt og þaðan stolið m.a. skotfærum. Skotfæri fundust svo í morgun í bifreið sem hafði jafnframt verið stolið. Þá var brotist inn í húsnæði sundlaugarinnar í nótt, fjármunum stolið og skemmdir unnar. Lögreglan tengir málin saman.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir í samtali við mbl.is að tilkynnt hafi verið um innbrotin í morgun, en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær þau voru framin í nótt. Hann segir að nokkrum munum hafi verið stolið úr skúr skotfélagsins, m.a. skotfærum. Þá er verið að kanna hvort skotvopn hafi einnig verið tekin ófrjálsri hendi. Aðspurður segir Stefán Vagn að töluverðar skemmdir hafi verið unnar í skúrnum.

Skotvöllur Ósmanns er í landi Meyjarlands á Reykjaströnd, um það bil fjóra kílómetra norður af Sauðárkróki. Stefán Vagn segir að þjófarnir hafi velt stolnu bifreiðinni skammt frá aðstöðu skotfélagsins þegar þeir hafi verið að yfirgefa vettvanginn, en í bílnum fundust m.a. skotfæri. „Það er ekki ósennilegt að menn séu nokkuð lemstraðir eftir svona byltu,“ segir Stefán Vagn.

Bifreiðinni var stolið á Sauðárkróki í nótt, en hún stóð fyrir utan hús í bænum.

„Það er ekki búið að handtaka neinn út af þessu máli. En við erum að reyna að púsla þessu saman og vonandi náum við fljótt utan um þetta,“ segir Stefán Vagn. Ekki liggur fyrir um hversu marga einstaklinga var að ræða.

Ömurleg aðkoma

Einnig var brotist inn í Sundlaug Sauðárkróks og þaðan stolið peningum. Ekki liggur fyrir um hve háa fjárhæð er að ræða. Jafnframt voru unnar skemmdir á húsnæðinu, en hurðir voru brotnir sem og gler í afgreiðslu laugarinnar. Yfirlögregluþjóninn segir að aðkoman hafi verið ömurleg.

Þá segir hann að lögreglan tengi málin sami og gruni að þarna hafi sömu aðilar verið á ferð. „Þetta gerist ekki á hverri nóttu hjá okkur sem betur fer,“ segir hann.

Höfðu í hótunum við ungt fólk

Þá greinir Stefán Vagn frá því að sl. miðvikudagskvöld hafi tveir menn haft í hótunum við ungt fólk á heimili þeirra í bænum, en þeir reyndu að hafa af því fé en án árangurs.

Unga fólkið fór á lögreglustöðina í framhaldinu. Þar tilkynntu þau lögreglu um málið sem hafði uppi á mönnunum. Mennirnir, sem eru á fertugsaldri, voru að deila þegar lögreglu bar að garði. Annar þeirra var handtekinn og sendur til Reykjavíkur þar sem hann á lögheimili. Hinn maðurinn er búsettur í bænum. Að sögn Stefáns Vagns eiga þeir báðir langan sakaferil. Hann segir málið vera upplýst.

Ekki liggur fyrir hvort þetta mál tengist innbrotunum í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert