„Við erum í raun og veru núna að koma fyrir alvöru upp á yfirborðið sem sá flokkur sem við höfum verið að móta,“ segir Birgir Örn Guðjónsson, nýkjörinn formaður Samstöðu. Fyrri degi landsfundar Samstöðu lauk með kosningu formanns og tveggja varaformanna nú síðdegis. Birgir Örn var eini frambjóðandinn og réttkjörinn formaður.
Birgir Örn Guðjónsson er fæddur árið 1976 og uppalinn á Akureyri en fluttist síðar til Hafnarfjarðar þar sem hann býr nú. Hann er kvæntur Söru Helgadóttur og saman eiga þau tvö börn. Birgir Örn starfar sem varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur ekki tekið þátt í stjórnmálastarfi áður.
„Ég tek bara svona hænuskref,“ segir Birgir aðspurður hvernig sé að stíga inn á vettvang stjórnmálanna sem nýliði. „Samstaða sýnir ákveðið hugrekki með þessu, að gefa þessum venjulega millistéttarmanni tækifæri til að leiða heilan stjórnmálaflokk. Við erum talsmenn þeirra sem þurfa mest á því að halda að hafa áhrif í stjórnmálum, það er millistéttin.
„Það er líka mín skoðun að stjórnmál séu farin að snúast of mikið um sig sjálf. Það er kominn tími til að við tölum um hlutina á mannamáli, komum með stjórnmálin aftur til fólksins og að stjórnmálin fari að snúast um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.“
Birgir segir mikla mótunarvinnu að baki innan flokksins. „Þessi helgi er í raun lokapunkturinn í öllu því starfi þannig að nú getum við farið af stað sem fullmótað afl. Stefna flokksins sé mjög skýr sem m.a. muni sjást í þeim ályktunum sem samþykktar verða á seinni degi landsfundarins á morgun.
Framundan er svo kosningabaráttan og Birgir Örn segir hana leggjast vel í sig. „Það er mjög mikið verk framundan en það er bara okkar skylda að standa okkar plikt og gera það sem þarf að gera. Og ég get ekki annað en verið mjög spenntur fyrir því.“