Ekki búið að sækja um leyfi að nýrri virkjun

Landmótun við Bjarnarflag.
Landmótun við Bjarnarflag. mbl.is

Landsvirkjun stendur í framkvæmdum á Bjarnarflagi. Um er að ræða undirbúningsvinnu fyrir landmótun þar sem hugsanlegt stöðvarhús mun rísa, ef ákveðið verður að byggja gufuaflsvirkjun á svæðinu.

Landsvirkjun sótti um framkvæmdaleyfi fyrir landmótun á stöðvarhússlóð fyrirhugaðrar Bjarnarflagsvirkjunar og gerð vegar inn á lóðina samsíða Námafjalli þann 24. júní 2012.

Leyfisumsóknin var samþykkt af Skútustaðahreppi.

Landmótunin er hafin eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Umræða skapaðist um að með þessu væru hafnar framkvæmdir á nýrri virkjun. Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Landsvirkjun, segir það vera misskilning.

„Hér virðist einhver misskilningur í gangi. Fyrirtækið er ekki búið að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun, heldur eru fengum við leyfi fyrir jarðvegsskiptum og landmótum. Með þessu erum við að vinna okkur í haginn ef það er einhver vilji til þess að gera eitthvað meira í vetur. Landmótunarframkvæmdir er þess eðlis að ef við hefðum ekki byrjað núna hefðum við þurft að bíða fram á næsta sumar,“ segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson.

Gert er ráð fyrir að 45 MW virkjun muni rísa í Þingeyjarsýslu. Annaðhvort á Þeistareykjum eða í Bjarnarflagi. Samkvæmt umhverfismati getur svæðið í Bjarnarflagi borið 90 MW virkjun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert