Landsvirkjun „laumast“ til að hefja virkjunarframkvæmdir

Bjarnarflag.
Bjarnarflag. mbl.is

Formaður Landverndar telur að með landmótunarframkvæmdum Landsvirkjunar á Bjarnarflagi, sé fyrirtækið að „laumast“ framhjá nýju umhverfismati. Tæp 10 ár séu síðan umhverfismat hafi verið gert á svæðinu og á þessum tíma hafi mikil reynsla komið á notkun og rekstri jarðhitunarvirkjana hér á landi.

Til stendur að Landsvirkjun hefji framkvæmdir á 45 MW jarðhitunarvirkjun í Þingeyjarsýslu. Annað hvort á Þeistareykjum eða við Bjarnarflag. Ekki er komið framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni við Bjarnarflag. Landsvirkjun hefur hins vegar fengið leyfi til landmótunar á svæðinu.

„Landsvirkjun er að nýta sér einhverjar gloppur í skipulagslögum til þess að hefja stórframkvæmdir án þess að virkjunarleyfi liggi fyrir,“ segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður umhverfissamtakanna Landvernd. 

„Segjum sem svo að fyrirtækið fái ekki leyfi fyrir þessari virkjun. Hvernig ætlar fyrirtækið þá að ganga frá svæðinu aftur? Setti sveitarfélagið einhver skilyrði um það? Í mínum huga er verið að byrja á öfugum enda. Auðvitað ætti fyrst að ganga frá því hvernig gengið verður frá svæðinu áður en hafist er handa við aðrar framkvæmdir,“ segir Guðmundur. 

Hann segir virkjunaráætlanir umdeildar. Gert hafi verið umhverfismat fyrir tæpum 10 árum. Þegar meira en 10 ár eru liðin frá því þarf hins vegar samkvæmt lögum að gera annað áður en framkvæmdir hefjist.

„Fyrirtækið er að setja framkvæmdir af stað til þess að það þurfi ekki að lúta því að annað umhverfismat verði gert.“

Hann segir að á síðustu 10 árum hafi mikil reynsla fengist á rekstri jarðhitavirkjana á Íslandi. „Í ljós hafa komið alls konar vandamál á þessum tíma eins og við Hellisheiðarvirkjun,“ segir Guðmundur, en nokkur umræða hefur skapast um brennisteinsmengun umhverfis hana.

Hann kallar eftir nýju umhverfismati þar sem menn óttist að grunnvatnsstraumar sem renna í Mývatn kunni að mengast þegar mikið magn af jarðhitavökva verður dælt upp á yfirborðið með tilkomu virkjunarinnar. Það geti haft áhrif á lífríki á svæðinu.

„Landsvirkjun ætlar greinilega ekki að gera annað umhverfismat og er í mínum huga að laumast til þess að hefja virkjunarframkvæmdir,“ segir Guðmundur. 

Sjá einnig: Landmótun á Bjarnarflagi

Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landsverndar.
Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landsverndar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert