Um 40 manns eru nú saman komnir á Landsfundi Samstöðu, nýs framboðs sem stofnað var af Lilju Mósesdóttur. Lilja lýsti því sjálf yfir í ágúst að hún myndi ekki gefa kost á sér í embætti formanns, sem kosið verður um í dag, en hún setti landsfundinn með ræðu nú eftir hádegi.
Lilja sagði í ræðu sinni að Samstaða hefði verið stofnuð í byrjun árs til að bregðast við hvatningu margra kjósenda sem vildu fá fram á sjónarsviðið lausnamiðaðan flokk með þor til að tala fyrir óhefðbundnum aðgerðum í þágu almennings. Lilja sagði hugmyndir Samstöðu skýrar eins og sjá mætti í grundvallarstefnuskrá flokksins, en því miður væri ekki fjármagn til að kynna þær fyrir kjósendum. Hún sagði fjölmiðla keppast við að telja kjósendum trú um að Samstaða hefði enga stefnu og í því ljósi mætti velta fyrir sér hvort næstu kosningar mundu uppfylla öll skilyrði sem gerð væru til lýðræðislegra kosninga.
„Stofnun nýs stjórnmálaflokks eins og Samstöðu útheimtir miklar persónulegar fórnir fyrir þá sem takast slíkt verkefni á hendur. Fórna verður tíma með fjölskyldu og vinum og leggja til fjármuni í starfið án þess að hægt sé að ganga út frá því sem vísu að flokkurinn nái þingsæti. Ég velti oft fyrir mér hversu miklar persónulegar fórnir hægt sé að ætlast til að fólk færi til að tryggja lýðræðið í sessi hér á landi. Ástæðan er ekki síst sú að þær kröfur, sem gerðar eru til einstaklinga sem gefa kost á sér til starfa fyrir ný framboð, eru óendanlegar á sama tíma og brauðstritið gefur lítið svigrúm til þátttöku í stjórnmálum,“ sagði Lilja.
Stefnuskrá Samstöðu má finna á heimasíðu flokksins.