Ekki að reyna að komast hjá nýju umhverfismati

Landmótunarframkvæmdir við Bjarnarflag.
Landmótunarframkvæmdir við Bjarnarflag. mbl.is

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir það ekki rétt að fyrirtækið sé að „laumast framhjá“ nýju umhverfismati, vegna virkjunarframkvæmda í Bjarnarflagi, líkt og formaður umhverfissamtakanna Landvernd heldur fram. Til stendur að velja annaðhvort Bjarnarflag eða Þeistareyki undir nýja 45MW jarðvarmavirkjun í Þingeyjarsýslu.

Fullt tillit tekið til nýjustu umhverfiskrafna

„Það umhverfismat sem nú er í gildi við Bjarnarflag er frá árinu 2004. Skipulagsstofnun ákveður að tíu árum liðnum hvort  það þurfi að endurtaka matið að hluta til eða að öllu leyti. Það er til nýrra mat á umhverfisáhrifum fyrir Kröflu og Þeistareyki frá árinu 2010 sem eru í næsta nágrenni. Landsvirkjun hefur tekið fullt tillit til alls sem þar kemur fram. Þar er fullt af nýjum umhverfiskröfum sem við munum fara eftir,“ segir Óli Grétar.     

Hann segir að gamla umhverfismatið megi skilja sem svo að ekki sé ætlunin að dæla öllu affallsvatni virkjunarinnar niður fyrir botn Mývatns.

„Nú liggur alveg ljóst fyrir að Landsvirkjun ætlar að dæla öllu affalsvatni niður fyrir grunnvatn, vel niður fyrir botn Mývatns, ef til virkjunarframkvæmda kemur. Áhrif á grunnvatn eiga því að vera tiltölulega lítil,“ segir Óli Grétar. 

„Til samanburðar má á móti benda á að affalsvatn sem kemur frá 3 MW Bjarnarflagsvirkjun, sem fyrir er á svæðinu, er losað á yfirborðið,“ segir Óli Grétar

Hann segir að rannsóknir hafi sýnt að brennisteinsmengun við virkjunina verði undir leyfilegum mörkum. „Landsvirkjun mun auðvitað samt sem áður ráðast í ýmsar mótvægisaðgerðir. En ef það þarf að gera eitthvað er það mjög lítið,“ segir Óli Grétar.

Ekki búið að taka neina ákvörðun um virkjun

Landsvirkjun stendur í landmótunarframkvæmdum á svæðinu að Bjarnarflagi þrátt fyrir að ekki liggi fyrir framkvæmdaleyfi fyrir nýrri virkjun. Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður landverndar, sagði í gær í samtali við mbl.is að hann teldi Landsvirkjun vera að „laumast framhjá“ nýju umhverfismati með því að hefja landmótunarframkvæmdir á Bjarnarflagi, áður en framkvæmdaleyfi fyrir nýrri virkjun væri tryggt.

Óli Grétar segir svo ekki vera. „Það er alls ekki svo. Þetta er bara einn liður í undirbúningsframkvæmdum. Við erum þegar búin að bora þarna rannsóknarborholur sem eru mun fjármagnsfrekari framkvæmdir. Ég ítreka að það er ekki búið að taka  neina formlega ákvörðun um að ráðast þarna í virkjunarframkvæmdir, enda erum við ekki búin að sækja um leyfi til orkustofnunar um að gera það,“ segir hann.   

 Landsvirkjun gengur vel frá

Guðmundur Hörður gagnrýndi meðal annars að ekki lægi fyrir hvernig ætti að ganga frá svæðinu ef Landsvirkjun velur að virkja á Þeistareykjum. „Það er rétt að við höfum ekki gert neinn samning um að ganga frá svæðinu á einhvern sérstakan hátt. En ef það verður ráðist í virkjunarframkvæmdir á Þeistareykjum en ekki í Bjarnarflagi verður að sjálfsögðu gengið frá svæðinu. Landsvirkjun hefur hingað til viljað halda því fram að vel sé gengið frá öllum þeim svæðum sem fyrirtækið hefur hafið framkvæmdir á,“ segir Óli Grétar.   
 

Sjá einnig Landsvirkjun laumast til að hefja virkjunarframkvæmdir

Ekki búið að sækja um leyfi að nýrri virkjun

Krefjast stöðvunar framkvæmda við Mývatn

Óli Grétar Blöndal Sveinsson
Óli Grétar Blöndal Sveinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert