Yoko Ono veitti fimm alþjóðlegum friðarsinnum viðurkenningu úr LennonOno-friðarsjóðnum í dag.
Lady Gaga er meðal þeirra sem hlutu verðlaun í ár en í fréttatilkynningu kemur fram að hún sé einn mikilvægasti listamaður okkar tíma.
„Hún er ekki aðeins listamaður heldur einnig baráttukona sem notar list sína sem miðil til að efla samskipti og koma boðskap sínum á framfæri við heiminn. Hún fær viðurkenningu fyrir baráttu sína og hvernig platan hennar „Born This Way“ hefur lagt sitt af mörkum til að breyta þankagangi í heiminum og hvernig við tökumst á við framtíðina sem þegar er hafin,“ er haft eftir Yoko Ono í fréttatilkynningu.
Lady Gaga tók við LennonOno-friðarverðlaunum í eigin persónu en einnig framlagi til góðgerðarmála sem hún mun veita stuðningssamtökum Eltons Johns fyrir alnæmissjúka og HIV-smitaða.
Rachel Corrie, 23 ára friðarsinni frá Olympiu í Washington, lést þegar ísraelsk jarðýta ók yfir hana hinn 16. mars 2003, er hún reyndi með friðsamlegum hætti að stöðva eyðileggingu ísraelska hersins á heimili palestínskrar fjölskyldu á Gaza.
Í anda Rachel Corrie og baráttu hennar fyrir málstað Palestínu hafa samtök, sem stofnuð voru í kringum hugsjónir hennar, Rachel Corrie Foundation for Peace and Justice, haldið áfram á þeirri braut sem hún hóf að feta. Samtökin hafa unnið að mannúðarmálum og fræðsluverkefnum sem mynda tengsl milli fólks, stuðla að auknum skilningi og virðingu og fagna fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð. Samtökin hvetja og styðja grasrótarsamtök í viðleitni þeirra til hvers konar friðarumleitana, baráttu fyrir mannréttindum og réttlæti á öllum sviðum, sem að þeirra mati er grundvallarforsenda friðar í heiminum.
Foreldrar Rachel Corrie tóku við viðurkenningunni í Hörpu í dag.
Rithöfundurinn og friðarsinninn John Perkins dró að sér athygli heimsins með útgáfu bókarinnar Confessions of an Economic Hit Man sem tróndi á toppi metsölulistans í New York Times í meira en heilt ár, segir í fréttatilkynningu.
„Bókin ljóstrar á magnaðan hátt upp um hina alþjóðlegu spillingu sem hann segir soga að sér auðlindir vanmáttugra þjóða. John Perkins er stofnandi félagasamtakanna Dream Change and The Pachamama Alliance, sem hafa helgað sig umbótum á fjölmörgum sviðum. Perkins hefur einnig flutt fyrirlestra um skyld efni við háskóla í fjórum heimsálfum og undirbýr nú útgáfu nýrrar bókar,“ segir í tilkynningu.
John Perkins tók sjálfur á móti viðurkenningunni.
Christopher Hitchens var rithöfundur og blaðamaður. Ferill hans spannar meira en 40 ár en hann skrifaði fyrir marga áhrifaríka fréttamiðla s.s. The Atlantic, The Nation, Vanity Fair, The Daily Mirror og marga fleiri, samkvæmt tilkynningu.
„Hann var höfundur tólf bóka og greinasafna auk þess sem hann var tilefndur til National Book Award árið 2007 fyrir metsölubókina sína God is not Great þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um skipulagða trúarstarfsemi sem „rót alls ills í heiminum“. Hitchens tók reglulega fyrir viðfangsefni eins og trúmál, stríðsrekstur, þekkta einstaklinga og alþjóðastjórnmál, var þekktur fyrir ögrandi stíl og varð því afar umdeildur maður,“ samkvæmt fréttatilkynningu.
Carol Blue Hitchens, ekkja Christophers Hitchens, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.
„Róttæku femínistarnir í pönkhljómseitinni Pussy Riot stigu fram á alþjóðasviðið í febrúar 2012 með ögrandi framkomu sinni í Cathedral of Christ the Saviour í Moskvu.
Í gjörningi við altari kirkjunnar fóru þær með pönkbæn til Maríu guðsmóður og báðu um lausn Rússlands undan valdi Vladimírs Pútíns, forseta landsins.
Eftir að myndband af gjörningnum var birt á netinu voru þrír meðlimir hljómsveitarinnar handteknir og ákærðir fyrir að stofna til óeirða. Stúlkurnar voru nýlega fundnar sekar eftir margra mánaða fangelsisvist og hafa verið dæmdar í tveggja ára fangelsi. Niðurstaða dómsins hefur vakið hörð viðbrögð í alþjóðasamfélaginu og hefur opinber stefna Rússlands er varðar frelsi til orða og athafna verið mjög vefengd. Pussy Riot á vísan stuðning fjölmargra friðarsinna í heiminum sem margir hverjir hafa mótmælt því óréttlæti sem þær hafa þurft að þola.
Yoko Ono veitti - í samstarfi við Amnesty International - Pussy Riot viðurkenninguna í New York hinn 21. september síðastliðinn í von um að þær verði leystar úr haldi sem fyrst,“ segir í tilkynningu.