Landvernd sendu umsögn um umhverfismat

Landmótunarframkvæmdir eru hafnar við Bjarnarflag.
Landmótunarframkvæmdir eru hafnar við Bjarnarflag.

Stjórn Landverndar sendu Skipulagsstofnun umsögn um umhverfismatið um Bjarnarflagsvirkjun í febrúar 2004. Samtökin hafa farið fram á við Landsvirkjun að framkvæmdir við virkjunina verði stöðvaðar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landvernd. Þar segir að í fréttum RÚV að undanförnu hafi ítrekað komið fram að sveitarstjóri Skútustaðahrepps undrist gagnrýni Landverndar á að undirbúningsframkvæmdir við Bjarnarflagsvirkjun séu hafnar þar sem að samtökin hafi ekki gert athugasemdir við umhverfismat vegna virkjunarinnar fyrir tæpum tíu árum síðan.

„Stjórn Landverndar vill leiðrétta þessa rangfærslu, en samtökin sendu Skipulagsstofnun umsögn um umhverfismatið þann 4. febrúar 2004. Stjórn Landverndar leggur áherslu á að snúa umræðunni að því sem hér skiptir öllu meira máli, þ.e.a.s. þeirri áhættu sem fylgir fyrirhuguðum framkvæmdum fyrir lífríki Mývatns og heilsu fólks á svæðinu og stafað getur af völdum affallsvatns- og brennisteinsvetnismengunar frá virkjuninni. Samtökin hafa farið fram á það við stjórn Landsvirkjunar að fyrirtækið stöðvi framkvæmdir á svæðinu og ráðist verði í gerð nýs umhverfismats í ljósi þess að mikilvæg reynsla hefur fengist á undanförnum árum af rekstri jarðvarmavirkjana og umhverfisáhrifum þeirra sem áhrif gætu haft á niðurstöðu umhverfismats.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert