„Mér hefur tekist að halda áætlun, sem er að hlaupa rúmlega maraþon á dag,“ segir tékkneski hlauparinn René Kujan sem nú hleypur hringinn í kringum landið. Hann lagði af stað frá Boot Camp stöðinni í Elliðaárdal þann 23. september, honum sækist ferðin með ágætum og var um 20 kílómetra austan við Akureyri síðdegis í dag.
Í dag var hann á 20. degi hlaupsins og hefur því hlaupið 20 maraþon á jafnmörgum dögun. Maraþonhlaup er 42,195 kílómetrar og takist René að halda áfram á sömu braut mun hann ljúka hlaupinu á áætluðum tíma, sem eru 30 daga og verður þá kominn hringinn þann 22. október.
Eiginkona Renés ekur á eftir honum í húsbíl ásamt ungu barni þeirra, fylgist með honum og sér honum fyrir drykkjum og hressingu. „Við hittumst á fimm kílómetra fresti, við erum saman í þessu,“ segir hann.
Hann segir prýðilega viðra til langhlaupa nú. „Hitastigið er eins og best verður á kosið. Það hentar mér vel að hlaupa þegar það er svalt í veðri. Þetta er bara hressandi,“ segir René og segist ekki hafa fundið fyrir neinum meiðslum í hlaupinu.
René segir að allir sem hann hafi hitt á hlaupunum hafi verið með endemum vinsamlegir og býst við að norðlenskir hlauparar muni slást í för með honum þegar hann hleypur frá Akureyri. Hann á þó síður von á að þeir hlaupi með sér alla leið til Reykjavíkur. „En það er aldrei að vita.“