Á árunum 2002-2010 greiddi Orkuveita Reykjavíkur 1.443 milljónir í styrki. Nefnd sem gerði úttekt á starfsemi fyrirtækisins segir að það veki sérstaka athygli að ekki hafi verið dregið úr styrkveitingum á árunum 2009 og 2010 þrátt fyrir að fyrirtækið væri þá í alvarlegum fjárhagsvanda.
Styrkveitingar Orkuveitunnar jukust ár frá ári, en mest var aukningin 2006-2008. Örlítið dró úr þeim 2009, en það ár voru 203 milljónir veittar í styrki, en árið 2010 voru 207 milljónir veittar í styrki. Á þessu níu ára tímabili sem nefndin skoðaði veitti Orkuveitan 1.443 milljónum í styrki á meðalverðlagi ársins 2010.
Styrkirnir eru af ýmsum toga s.s. menningar-, íþrótta-, æskulýðs-, líknar- og velferðarmála svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru veittir styrkir til háskóla og stofnana á vegum ríkisins og sveitarfélaga.
Í skýrslu úttektarnefndarinnar er víða vikið að því að óljóst hafi verið hvort Orkuveitan starfaði opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfaði á einkaréttarlegum grunn. „Sýnist fyrirtækið hafa verið í hlutverki fyrirtækis sem starfar á einkaréttarlegum grunni þegar ákvarðanir voru teknar um styrkveitingar, jafnvel þótt fyrirtækið væri í reynd rekið með bakábyrgð útsvarsgreiðenda. Að áliti úttektarnefndarinnar var um að ræða háar fjárhæðir, og sem rétt hefði verið að móta skýrari reglur um. Úr því var ekki bætt fyrr en á árinu 2007.“
Nefndin segir að það veki einnig athygli að ekki virðist hafa verið dregið úr veitingu styrkja fyrr en samhliða sparnaðaraðgerðum Orkuveitunnar árið 2010. Að mati úttektarnefndarinnar hefði verið full ástæða til að draga úr styrkveitingum seinni hluta árs 2008 og árið 2009, en hafa ber í huga að Orkuveitan kann að hafa skuldbundið sig til að greiða styrki vegna sumra styrkverkefna til lengri tíma og því ekki getað hætt einhliða greiðslu þeirra. „Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að engin merkjanleg breyting varð á veitingu styrkja hjá fyrirtækinu fyrr en á árinu 2010, þótt hér sé um að ræða rekstrarlið sem auðvelt er að draga saman þegar að þrengir í rekstri fyrirtækis.“
Frá og með árinu 2010 hafa styrkveitingar frá Orkuveitu Reykjavíkur snarlega dregist saman samfara aðhaldsaðgerðum stjórnenda. Til að mynda námu styrkveitingar á árinu 2011 einungis rétt rúmlega 38 milljónum króna en um 95% þeirrar upphæðar voru samningsbundnar skuldbindingar, sem stofnað hafði verið til fyrir aðhaldsaðgerðir stjórnar.
Í skýrslu úttektarnefndarinnar eru birtur listi yfir allar styrkveitingar á árunum 2002-2010. Listinn telur samtals 40 blaðsíður, en hann hefst á blaðsíðu 513 í skýrslunni.