Ekki ætlunin að afvegaleiða fólk

Í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit er mikið um orkurík svæði.
Í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit er mikið um orkurík svæði. mbl.is/RAX

Ætlun Landsvirkjunar er ekki að afvegaleiða fólk á neinn hátt. Ekkert launungamál er að stefnt hafi verið að virkjunum í Bjarnarflagi og þær framkvæmdir sem þar eru hafnar nú er algjörlega afturkræfar. Þetta sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar á fundi með umhverfisnefnd Alþingis í dag.

Landsvirkjun vinnur að landmótunarframkvæmdum við Bjarnarflag til þess að undirbúa vinnu að virkjun sem mun mögulega rísa á svæðinu. Landvernd hefur sem kunnugt er óskað eftir því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan nýtt umhverfismat fer fram. Núverandi umhverfismat var gert árið 2004 og gildir til 10 ára, svo að síðustu árið 2014 þyrfti að taka afstöðu til þess hvort gera þurfi nýtt mat. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis boðaði í dag til fundar með aðilum málsins til að fara yfir stöðuna. 

Á skjön við það sem íbúum var sagt

Dr. Árni Einarsson líffræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar vð Mývatn sagði frá íbúafundi í Mývatnssveit í sumar þar sem Landsvirkjun hafi gefið út þá yfirlýsingu að ekki væri búið að ákveða hvort virkja ætti á Bjarnarflagi, eða í Þeystareykjum. Árni sagði það því hafa komið sér mjög á óvart þegar hann gerði sér ferð að svæðinu og sá að framkvæmdir voru hafnar á byggingarsvæði fyrirhugaðs stöðvarhúss sunnan megin í Bjarnarflagi þar sem til þessa hafi verið óraskað lands.

„Þarna voru framkvæmdir komnar á alveg nýtt stig sem var að mínu mati á skjön við það sem kom fram á þessum íbúafundi og á skjön við það sem fólk var látið halda um það hver staða málsins væri,“ sagði Árni og bætti því við að hann hefði talið að til þess þyrfti framkvæmdaleyfi frá hreppnum, virkjanaleyfi og fleira. 

Undirbúningur sem „teygir sig inn í framkvæmdafasann“

Landsvirkjun hefur sagt að framkvæmdirnar séu landmótun sem sé aðeins liður í undirbúningi fyrir hugsanlegar virkjun sem ekki sé búið að taka ákvörðun um ennþá. Hörður Arnarson viðurkenndi á fundinum að framkvæmdirnar sem nú standi yfir í Bjarnarflagi „teygi sig inn í framkvæmdafasann“ en sagði að raskið algjörlega afturkræft. Landsvirkjun telji sig hafa ráðist í þær með leyfi sveitarfélagsins. 

„Það er ekki ætlun okkar að afvegaleiða fólk á neinn hátt, við vitum að það er vel fylgst með okkur og teljum gott að fyrirtækið hafi aðhald.“ Fram kom á fundinum að á þeim 10 árum sem liðin eru síðan umhverfismat var gert sé komin fram mikil ný þekking á því hvaða áhrif orkuöflun með gufuaflsvirkjunum hafi á umhverfið. Aðspurður hvort ekki kæmi til greina í þessu ljósi að Landsvirkjun tæki sjálf frumkvæði að því að gert verði nýtt umhverfismat í Bjarnarflagi sagðist Hörður meðvitaður um að umhverfismat Bjarnarflags nálgaðist að verða 10 ára gamalt en Landsvirkjun telji það ekki úrelt. 

Hægt að skila svæðinu í fyrra standi

„Það hefur mikill lærdómur verið dreginn frá Hellisheiði á 10 árum. Stærsta ákvörðunin byggð á því sem við höfum lært er að vera varfærin í uppbyggingu,“ sagði Hörður og benti á að Landsvirkjun legði eingöngu til að fara í 45 MW virkjun, sem sé helmingi minna en umhverfismatið segi til um. Þá hafi Landsvirkjun engin áform um að ráðast í annan áfanga Bjarnarflagsvirkjunar, heldur að áhrifin af fyrsta áfanga verði fyrst metin. 

Krafa um að stöðva þessar framkvæmdir kemur mjög á óvart að sögn Harðar enda hafi aldrei áður komið fram krafa um að framkvæmdir séu stöðvaðar á meðan rammaáætlun er í vinnslu. Benti hann í þessu samhengi á Búðarhálsvirkjun. „Við töldum að það væri nánast öruggt að Bjarnarflag myndi lenda í virkjunarflokki, en verði svo ekki er það ekkert vandamál fyrir okkur að stöðva framkvæmdir og skila svæðinu svæðinu aftur í fyrra standi.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Landmótun við Bjarnarflag.
Landmótun við Bjarnarflag. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert