Margvíslegar skýringar á töfum

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Lárus Ögmundsson yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar á fundi …
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Lárus Ögmundsson yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar á fundi fjárlaganefndar í lok september. Morgunblaðið/Ómar

Breytingar á mannahaldi, breytt forgangsröðun eftir hrunið haustið 2008 og fleira varð þess valdandi að vinna Ríkisendurskoðunar við skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins dróst. Þetta segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi í minnisblaði til forsætisnefndar Alþingis.

Forsætisnefnd Alþingis sendi ríkisendurskoðanda bréf í lok síðasta mánaðar og gaf honum frest fram í lok október að skila skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfið. Jafnframt var í bréfinu gagnrýndur sá dráttur sem orðið hefur á því að skýrslu um kerfið sé skilað til Alþingis.

Minnisblað og bréf frá ríkisendurskoðanda voru rædd á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag. Í bréfinu segir Sveinn að hann sé „ákaflega hugsi yfir atburðarrásinni í tengslum við birtingu Kastljóss á vinnugögnum og trúnaðarskýrslum Ríkisendurskoðunar.“ Þessi drög hafi verið tekin ófrjálsri hendi úr gagnasafni stofnunarinnar. „Ég er sérstaklega hugsi yfir þætti núverandi formanns fjárlaganefndar þar sem honum var kunnugt um „skýrsludrög“ Ríkisendurskoðunar síðla nóvember 2009 en lét aldrei svo lítið að spyrjast fyrir um þau hjá mér frá þeim tíma.“

Sveinn segist bera ábyrgð á töfunum

Í minnisblaðinu segir Sveinn að hann beri fulla ábyrgð á því að vinna við skýrsluna hafi dregist. Rúmlega átta ár eru síðan Ríkisendurskoðun fékk beiðni um að vinna skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfið. Sveinn segir að það gefi auga leið að vinna við svo umfangsmikið og sérhæft verkefni verði ekki hrist fram úr erminni á einni nóttu.

Sveinn segir að á þessum tíma hafi aðeins einn sérfræðingur á sviði upplýsingakerfa unnið hjá stofnunni. Þó það skipti ekki meginmáli sé rétt að taka fram að hann hafi verið frá vegna veikinda frá águst 2004 fram á mitt ár 2005 og því hafi ekki verið hafist handa við verkefnið á meðan.

Hann segir að Ríkisendurskoðun hafi ekki talið ráðlegt að hefja vinnu við þetta verkefni fyrr en innleiðingu kerfisins var lokið. Áætlað var að innleiðingunni lyki 2004, en það hafi dregist til ársins 2005 og raunar nokkrir þættir enn lengur.

Starfsmenn ráðnir en hurfu til annarra starfa

Á árinu 2005 réði Ríkisendurskoðun tvo kerfisfræðinga til starfa sem byrjuðu á smærri verkefnum, en í framhaldinu hófst gagnasöfnun. Fram kemur í minnisblaði Sveins að Fjársýslan hafi á því ári óskað eftir að hægt yrði á vinnunni vegna mikilla anna hjá stofnuninni. Kerfisfræðingarnir hurfu síðan til annarra starfa.

Það er síðan ekki fyrr en í mars 2007 sem nýr kerfisfræðingur er ráðinn til starfa og hófst þá vinna við úttektina af fullum krafti. Að henni unnu þessi starfsmaður og forsvarsmaður endurskoðunar upplýsingakerfa. Í lok febrúar 2008 skiluðu þeir drögum að skýrslu upp á 81 blaðsíðu. Sveinn segir að Sigurður Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, hafi ekki verið sáttur við drögin.

Sveinn segir að eftir efnahagshrunið haustið 2008 hafi starfsáætlanir Ríkisendurskoðunar riðlast og starfsmenn hafi verið kallaðir til óvæntra verkefna. Starfsemi stofnunarinnar hafi verið þessu marki brennd næstu misseri og jafnvel lengur.

Sveinn segir að þegar kom fram á árið 2009 hafi hann kynnt sér fyrirliggjandi drög að skýrslur, sem þá voru orðin meira en árs gömul. Hann segir að drögin hafi verið í hróplegu ósamræmi við áherslur stofnunarinnar um að skýrslur ættu að vera stuttar og hnitmiðaðar. Hann hafi því falið tölvunarfræðingi, sem réðist til stofnunarinnar um mitt ár 2007, að fara yfir drögin og stytta þau án þess þó að rýra þau faglega.

Ekki sáttur við skýrsludrögin

Sveinn segist ekki hafa verið sáttur við drögin. Hann hafi gert fyrirvara um ýmsar ályktanir og efnistök. Drögin hafi ekki staðist kröfur sem stofnunin gerir jafnan til rannsóknar- og endurskoðunarvinnu. Hann segir að sér hafi fundist umfjöllun um áætlaðan stofnkostnað og fjárheimildir „mjög glannalegar“. Hann segist ennfremur haft efasemdir um að stofnunin byggi eins og á stóð yfir nægilegri þekkingu á upplýsingakerfum til að ljúka faglega þætti úttektarinnar. Ekki hafi þó komið til greina að kaupa sérfræðiaðstoð, enda hafi fjárhagur Ríkisendurskoðunar ekki leyft það.

Sveinn segir að á þessum tímapunkti hafi 9 ár verið liðin frá kaupum á kerfinu og sjö ár frá því það var tekið í notkun.  Það sé gömul saga og ný að það fenni yfir minni manna auk þess sem gögn um málið séu ekki eins nærtæk og aðgengileg og þau voru þegar vinna við úttektina hófst. Hann hafi því hafi því hallast að því að ekki væri áhugavert að halda áfram með upphaflega verkið. Sveinn segir að eftir á að hyggja hefði hann átt að gera forsætisnefnd grein fyrir þessu og leita eftir samþykki hennar. Því miður hafi það ekki verið gert.

Drátturinn ekki það sama og að rjúfa trúnað

„Að lokum skal viðurkennt að mál þetta hefur reynst mér og stofnuninni erfitt og endalausar tafir við vinnuna hafa valdið yfirmönnum hennar áhyggjum. Ég vil þó að það komi fram hér að þessi dráttur á frágangi skýrslunnar er í mínum huga alls ekki það sama og að rjúfa trúnað við Alþingi eins og ýmsir þingmenn hafa leyft sér að fullyrða. Á sama hátt verð ég að lýsa vonbrigðum mínum og áhyggjum yfir því að vinnugögn Ríkisendurskoðunar hafi verið tekin ófrjálsri hendi úr fórum stofnunarinnar og ekki síður að RÚV hafi í ljósi eðlis gagnanna talið það þjóna almannahagsmunum að fjalla um þau og öryggismál upplýsingakerfa með þeim hætti sem gert var,“ segir Sveinn í lok minnisblaðsins til forsætisnefndar.

Bréfið rætt í forsætisnefnd í dag

Bréf ríkisendurskoðanda var rætt á fundi forsætisnefndar í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi skiptust menn á skoðunum um málið, en engin formleg afstaða var tekin til þess. Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins berst um næstu mánaðarmót muni skýrslan fara í hefðbundna umræðu og meðferð í þinginu og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert