Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að kaupa umferðarmiðstöðina BSÍ og lóðina Keilugranda 1. Umferðarmiðstöðin og lóðin sem fylgir verða keypt fyrir 445 milljónir króna, en seljendur eru Mynni ehf og Landsbanki Íslands. Fundargerð hefur ekki verið birt en Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, greinir frá þessu á samskiptavefnum Facebook.
Eins og kom fram seint í síðasta mánuði er aðalástæðan fyrir kauptilboðinu sú að Reykjavíkurborg hyggst nýta Umferðarmiðstöðina sem miðstöð almenningssamgangna í Reykjavík.
„Í kringum lóð Umferðamiðstöðvarinnar er svæði sem nefnt hefur verið U-reitur en ríkið skilaði Reykjavíkurborg nýverið því svæði til baka. Með kaupunum á Umferðarmiðstöðinni gefst borginni kostur á að deiliskipuleggja svæðið í heild sinni. Gerir borgin ráð fyrir fjölbreyttri uppbyggingu á svæðinu enda nýtur það nálægðar við háskólasvæðið í Vatnsmýri og nýjan Landspítala. Hugmyndin er að þarna rísi blönduð byggð lítilla og meðalstórra íbúða sem muni henta ungu fólki,“ segir í frétt um málið þegar það var til meðferðar hjá borgarráði.
Þar segir einnig að hugmyndir Reykjavíkurborgar varðandi Umferðarmiðstöðina gangi út á það að leiðakerfi Strætó bs. verði breytt þannig að Umferðarmiðstöðin taki að mestu við núverandi hlutverki skiptistöðvar á Hlemmi. Kaupunum fylgir leigusamningur við Kynnisferðir. Stefnt er að því að gera nýjan samning við fyrirtækið sem taki mið af breyttum aðstæðum en taki jafnframt tillit til hagsmuna fyrirtækisins