Hreyttu svívirðingum í lögregluna

Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, flutti erindi á hádegisfundi í Valhöll í dag þar sem hann sagði frá sinni hlið atburðanna í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 þegar búsáhaldabyltingin svokallaða átti sér stað. Geir Jón hefur einnig tekið saman skýrslu fyrir ríkislögreglustjóra um atburðina en erindið í dag sem hann kallaði Aðför að Alþingi byggði ekki á þeirri skýrslu.

Geir Jón gerði  framgöngu Álfheiðar Ingadóttur þingkonu VG að umtalsefni og sérstaklega orð hennar í Fréttablaðinu um að lögreglan hefði gengið of hart fram í að verja Lögreglustöðina við Hverfisgötu 22. nóvember 2008 þegar reynt var að brjótast þar inn og þótti honum það afar óviðeigandi. Lögreglumenn þyrftu að vernda vinnustað hennar en mættu ekki vernda sinn eigin.

Þá sagði Geir Jón að einhverjir þingmenn hefðu hreytt svívirðingum í lögreglumenn á meðan þeir voru að verja alþingishúsið. Hann vildi ekki nefna þá en sagði að þær upplýsingar lægju fyrir á meðal starfsmanna alþingis og þingmanna. Þetta hefði verið að gerast á sama tíma og laun lögreglumanna hefðu verið lækkuð vegna niðurskurðar en hann nefndi jafnframt að kostnaður vegna aðgerðanna á tímabilinu væri líklega í kring um 100 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert