Klámiðnaðurinn niðurlægir konur

Gail Dines prófessor við Wheelock háskóla í Boston hélt fyrirlestur …
Gail Dines prófessor við Wheelock háskóla í Boston hélt fyrirlestur um klám í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Myndir af fáklæddum konum með tælandi bros teljast tæpast klám lengur heldur poppmenning. Klámiðnaðurinn hefur á síðustu árum orðið mun grófari og þar er niðurlæging kvenna gegnumgandandi. Neytendurnir eru flestir karlmenn og allt niður í unga drengi. Spurningin er hvort og hvaða áhrif efnið hefur á kynvitund þeirra, en það var meðal þess sem rætt var á ráðstefnu um klám út frá lagalegu og samfélagslegu sjónarmiði í dag.

„Fólk segir gjarnan að klám hafi alltaf verið til staðar. Að um leið og mannskepnan gat krotað eitthvað í jarðveginn með priki hafi klám orðið til. Ég efast ekkert um að það sé rétt. En ég er ekki að tala m klám sem eitthvað tilviljanakennt safn af myndum, heldur sem iðnað,“ sagði Gail Dines, prófessor við Wheelock College í Boston, sem hélt erindi á ráðstefnunni um kynímyndir, sjálfsmynd og nánd í klámmenningu. 

Ofbeldi og kvenfyrirlitning gegnumgangandi

Dines benti á þá hröðu þróun sem orðið hefur í klámiðnaðinum með tilkomu internetsins. Börn í dag hafi greiðan aðgang að mjög grófu klámefni sem varla fékkst í klámverslunum fyrir aðeins örfáum árum. Hún sagði að það sem í raun hafi áður verið hefðbundið klámefni hafi færst yfir í poppmenninguna, í formi fáklæddra kvenna með tælandi bros, á meðan klámiðnaðurinn hafi orðið sífellt grófari. Margir geri sér enga grein fyrir því hversu mikið ofbeldi og kvenfyrirlitning sé gegnumgangandi í því klámi sem nú sé hvað algengast.

„Það má segja að þetta sé félagsfræðileg tilraun. Aldrei áður höfum við alið upp kynslóð af drengjum sem eru reglulegir neytendur harðkjarna klámefnis. Ég veit ekki hvort og þá hverjar langtímaafleiðingarnar verða, en það er ekki hægt að segja að þetta hafi alls engin áhrif. Ef svo væri þá stangaðist það á við allt það sem við vitum í félagsfræði og sálfræði. Þá þyrftum við að samþykkja að fólk fæðist fullmótað eins og það er og verði ekki fyrir neinum áhrifum af menningunni. Eða hefur tískuiðnaðurinn ekki áhrif á það hvernig þið klæðist? Hefur matvælaiðnaðurinn ekki áhrif á það hvað þið borðið? Er það rökrétt að klámiðnaðurinn sé eini iðnaðurinn sem hafi engin áhrif á neytendur?“

Gríðarleg áhrif lítils hóps karla

Um 36% af internetinu er klám, að sögn Dines. Klámsíður skipta milljónum og um þriðjungur alls niðurhals af netinu er klám. Í Bandaríkjunum einum eru um 40 milljónir reglulegra klámnotenda og á hverju ári eru 13.000 bandarískar klámmyndir settar á markað. Á heimsvísu veltir bandaríski klámiðnaðurinn um 97 milljörðum dala árlega.

Dines benti á að klámframleiðsla sé farin að þjappast á sífellt færri hendur í Bandaríkjunum, sömu fyrirtæki reki fjölda klámsíðna á netinu sem ýti litlum klámframleiðendum út af markaðnum. Hjarta iðnaðarins sé í Kaliforníu og þar sé því í raun lítill hópur karla sem hafi ótrúleg áhrif um allan heim á það hvernig fólk, og ekki síst unglingar, móti kynvitund sína. „Viljið þið að lítill hópur karla í Los Angeles móti íslenska drengi sem kynverur?“ spurði Dines. 

Konur afmennskaðar í gonzo klámi

Hún skýrði í stuttu máli frá tveimur helstu tegundum klámmynda sem framleiddar eru í dag. Annars vegar eru það s.k. „feature “klám, með e-s konar söguþræði, persónusköpun o.fl. í ætt við hefðbundnar kvikmyndir. Hins vegar er það „gonzo“ klám sem eru hrárri myndir í anda heimagerðra klámmynda þar sem engin tilraun er gerð til að segja neins konar sögu og klámið er oftast mun grófara. Að sögn Dines sýna rannsóknir að karlar sem neyta kláms horfi frekar á gonzo klámmyndir þegar þeir eru einir, en „feature“ klám nota þeir til að reyna að kynna nýjar kynlífsathafnir fyrir rekkjunaut sínum. 

Dines vill meina að gonzo myndirnar svo kölluðu séu mun grófari tegund af klámi en almennt tíðkaðist bara fyrir 10 árum síðan. „Ef þú sérð fyrir þér tvær manneskjur að elskast þegar þú hugsar um klám, þá get ég ekki sagt þér hvar þú átt að finna það klám. Það sem gonzo klám byggir á er að konur eru afmennskaðar. Karlinn sem fróar sér yfir þessu efni vill ekki þurfa að sjá manneskjuna skína í gegn því það eyðileggur upplifunina, þannig að konur eru sviptar mannlegri reisn.“

Snýst um að niðurlægja 

Einar algengustu tegundir af gonzo klámefni sem tröllríður netinu er að sögn Dines myndir þar sem getnaðarlim er troðið svo djúpt ofan í kok á konu að hún kúgast, tárast og jafnvel ælir. Nærmyndir eru sýndar af tárvotum augum þeirra og þjáningarsvip. Annað sem algengt er að sjá í gonzo klámi eru mjög harkaleg endaþarmsmök. „Hefðbundnasta“ gonzo klámið, ef svo má að orði komast, lýsti Dines sem senu þar sem er 1 kona en 2-3 karlar sem „hamast á henni úr öllum áttum, toga í hárið á henni, hrækja í andlitið á henni, kalla hana hóru.“

Þetta er að sögn Dines lýsandi fyrir gonzo klám, sem alls staðar er að finna á netinu. „Því meira sem konan er niðurlægð, því meiri er örvunin. Við þurfum að hugsa um klámið þannig, þetta snýst um að niðurlægja, ekki að njóta kynlífs.“ Rannsóknir sýna svo að þeir sem neyta kláms í miklum mæli verða fljótt leiðir á efninu og þurfa stöðugt að finna nýtt, og þá gjarnan harðara, efni.

Skilaboð til drengja

Í ofanálag sagði er þetta klám að sögn Dines sett fram þannig að þetta sé „það sem allir karlar vilji í alvörunni gera“ við konur. „Ímyndið ykkur áhrifin sem það getur haft og áfallið sem það getur verið fyrir 12 ára dreng sem leitar að klámi á netinu í fyrsta sinn og hefur kannski séð fyrir sér að skoða ber brjóst, en þetta er það sem hann finnur, með þeim skilaboðum að þetta sé það sem hann eigi að vilja gera. Því meira sem þú ríður konum, því meira karlmenni ertu,“ sagði Dines.

Hún sagðist ekki trúa því sjálf að það sé drengjum og körlum eðlislægt að fyrirlíta konur heldur séu þeir aldir á kvenfyrirlitningu í gegnum klámið. „Kvenréttindi og klámiðnaðurinn eru tveir hlutir sem ekki fara saman, “sagði Dines. Ræða þyrfti klámið út frá fleiri hliðum, þar á meðal frelsi fólks til að móta sína eigin kynvitund, virðingu fyrir konum og ekki síður virðingu karla fyrir sjálfum sér.

Ljósmyndir af fáklæddum konum teljast ekki lengur klám heldur poppmenning. …
Ljósmyndir af fáklæddum konum teljast ekki lengur klám heldur poppmenning. Klámiðnaðurinn er orðinn mun grófari. AFP
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti ráðstefnuna sem haldin var í dag …
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti ráðstefnuna sem haldin var í dag um klám út frá lagalegu og samfélagslegu sjónarhorni. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert