Björgunarsveitirnar þurfa að reiða af hendi 300 þúsund krónur til að fá að selja Neyðarkallinn í Kringlunni í nóvember.
Þetta er ekkert nýtt, segir Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en hann segir Kringluna einu verslunarmiðstöðina sem rukkar góðgerðarfélög fyrir sölu í húsnæðinu.
Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri rekstrarfélags Kringlunnar, segir mikla aðsókn í plássið á göngugötum Kringlunnar hafa kallað eftir stýringu. „Við fáum kvartanir frá viðskiptavinum þegar áreitið í göngugötunni er orðið of mikið,“ segir Sigurjón. „Þú átt að geta komið í húsið og gengið að því vísu að vera ekki áreittur á hverju horni,“ segir hann.
Sigurjón segir að góðgerðarfélög fái tvo frídaga á ári en greiði 50% af hefðbundnu leiguverði fyrir umframdaga.