Augljós áhrif kláms í kynferðisbrotum

Mikill meirihluti ungs fólks kemst í tæri við klám á …
Mikill meirihluti ungs fólks kemst í tæri við klám á netinu en strákar neyta þess mun frekar en stelpur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Starfsmenn kynferðisbrotadeildar lögreglu merkja augljós áhrif kláms í mörgum þeim kynferðisbrotamálum sem inn á þeirra borð koma. Oft eru hugmyndir ungs fólks um kynlíf mjög ólíkar þegar það t.d. hittist eftir að hafa kynnst á netinu.

Þetta sagði Sigríður Hjaltested, lögfræðingur hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á ráðstefnu sem fram fór í Háskóla Íslands í dag þar sem fjallað var um klám út frá lagalegu og samfélagslegu sjónarmiði. 

Stelpurnar „láta sig hafa það“

Sigríður áréttaði að hver og einn skilgreindi eflaust klám á mismunandi hátt en sagði að í flestra huga væri þó um að ræða einhvers konar öfgar sem oft vektu tilfinningar eins og vanlíðan eða viðbjóð. Flestir geti verið sammála um að barnaklám uppfylli þessi skilyrði, en þegar kemur að öðru klámi vandist málið og skilin séu óljósari. 

Engu að síður sagði Sigríður að hugtök s.s. klám og kynlífsmenning væru kynferðisbrotadeild lögreglu vel kunn „af því að það er alveg skýr og augljós eftiröpun úr klámi í mörgum þeim málum sem inn á okkar borð koma.“ Sigríður sagði að í þessum málum væri oft um ungmenni að ræða og að hugmyndir þeirra um hvað væri eðlilegt í kynlífi væru oft og tíðum mjög brenglaðar, ekki síst hugmyndir ungra karla. 

„Við verðum hins vegar líka vör við þá tilhneigingu hjá ungum konum að telja sig þurfa að þóknast karlmönnum og veita þar af leiðandi lítið mótstöðuafl. „Að láta sig hafa það“ eru orð sem við heyrum oft frá ungum konum, “ sagði Sigríður. Málin sem koma inn á borð kynferðisbrotadeildar lögreglu einkennast að hennar sögn oft af vangetu ungs fólks til að setja sér mörk og virða mörk annarra. „Þetta orð, „virðing“, kemur afskaplega lítið við sögu í þessum málum,“ sagði Sigríður. 

Miklu fleiri strákar skoða klám

Yfirgnæfandi meirihluti barna og unglinga hefur komist í tæri við klámefni á netinu, að því er fram kom í máli Þorbjargar Sveinsdóttur, sálfræðings hjá Barnahúsi, á ráðstefnunni í dag. Þetta klámefni hefur orðið grófara með hverju árinu og sækja strákar mun meira í það en stelpur.

Þorbjörg vitnaði til rannsóknar sem Rannsókn og greining gerði meðal menntaskólanema hér á landi árið 2004 og leiddi í ljós að 57% pilta í framhaldsskólum sögðust skoða klám einu sinni í viku eða oftar, en aðeins 3% stúlkna. „Þetta er rosalegur munur og það er því kannski ekki skrýtið að bæði kynin verði ógurlega hissa þegar þau svo fara og sofa saman í fyrsta skipti því sýn þeirra getur verið mjög ólík,“ sagði Þorbjörg.

Málin sem enda hjá lögreglu byrja oft með kynnum á netinu, að því er fram kom í máli Sigríðar. Ungt fólk hittist þá eftir að hafa spjallað talsvert saman á netinu um hitt og þetta, þar á meðal kynlíf. Þegar á hólminn er komið séu hugmyndir þeirra hins vegar oft mjög ólíkar um hvað muni eiga sér stað.

Smitast inn í ofbeldi gegn börnum

Áhrifin af klámi smitast að sögn Þorbjargar inn í kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og unglingum. Hún benti á að oft hafi ungt fólk bæði mjög óljósar hugmyndir, og ýmsar ranghugmyndir, um kynlíf en einnig um kynferðisofbeldi.

Í 36% þeirra mála sem Barnahús sinnir eru gerendur á aldrinum 12-17 ára, þ.e börn og unglingar sem sýna af sér óæskilega kynhegðun eða misnotar önnur börn. Þorbjörg sagði að athafnir barnanna í þessum málum séu oft eins og „copy/paste“ úr klámmyndum og jafnvel dæmi um að börnin séu að horfa á klám á meðan. 

„Oft hafa foreldrar ekki hugmynd um hvað börn og unglingar eru að gera á netinu og hafa ekki ímyndunarafl til að sjá það fyrir sér,“ sagði Þorbjörg. Þær Sigríður bentu báðar á að lausnin fælist ekki bara í lögum og reglum heldur þyrfti frekari vitundarvakningu og hugarfarsbreytingu. „Það þarf að styrkja sjálfsmynd stúlkna og drengja. Það þarf að kenna unglingum að setja mörk og virða mörk og það þarf að virkja og styrkja foreldra til þess. Við verðum líka að heyja okkar hildi heima við,“ sagði Sigríður. 

Troðfullur salur var á ráðstefnu sem haldin var um klám …
Troðfullur salur var á ráðstefnu sem haldin var um klám í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka