Skýrslunni verður mikið breytt

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.

Búast má við að sú skýrsla sem Ríkisendurskoðun skilar Alþingi um næstu mánaðarmót um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins verði talsvert ólík þeirri þeim drögum að skýrslu sem Kastljós fjallaði um í haust. Bæði núverandi og fyrrverandi ríkisendurskoðandi hafa lýst óánægju með drögin.

Alþingi gaf Ríkisendurskoðun frest fram til næstu mánaðamóta til að skila skýrslu um fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Fjársýsla ríkisins og fjármálaráðuneytið fengu skýrsluna til umsagnar 27. september. Gefinn var vikufrestur til að skila umsögnum. Báðir aðilar óskuðu eftir lengri fresti. Ríkisendurskoðandi segir í bréfi til forseta Alþingis að hugsanlegt sé að þetta hafi áhrif á hvenær Ríkisendurskoðun getur skilað sinni skýrslu. Enn er þó miðað við það hjá Ríkisendurskoðun að skila skýrslunni um mánaðamótin.

Ljóst er að þau drög að skýrslu sem Kastljós fjallaði um voru ekki fullgerð af hálfu Ríkisendurskoðunar. Sigurður Þórðarson, sem var ríkisendurskoðandi fram á mitt ár 2008, sagði í viðtali við RÚV fyrir skömmu að hann teldi drögin alls ekki nægilega vel unnin og hann hafi þess vegna viljað láta skoða ýmsa þætti málsins betur.

Sveinn Arason, núverandi ríkisendurskoðandi, er sömu skoðunar. Þetta kemur fram í minnisblaði hans til forseta Alþingis. „Því er ekki að leyna að ég var alls ekki sáttur við drögin eins og þau lágu fyrir. Í raun gerði ég fyrirvara um ýmsar ályktanir og efnistök í nánast öllum köflum skýrsludraganna enda virtust þau hvorki standast þær kröfur sem stofnunin hefur jafnan gert til rannsóknar og endurskoðunarvinnu né það vinnulag sem stofnunin hafði sett sér og fylgdi í þessum efnum. Mér fannst t.d. umfjöllunin um áætlaðan stofnkostnað kerfisins og fjárheimildir mjög glannaleg sem og umfjöllun um útboðið sjálft. Þá fannst mér sláandi hve sumar ályktanir eða niðurstöður skýrsluhöfunda voru í hróplegu ósamræmi við fyrirliggjandi gögn og skýringar,“ segir Sveinn í minnisblaðinu.

Sveinn segir ennfremur að hann hafi rökstuddar efasemdir um réttmæti samanburðar við fjárhagskerfi danska ríkisins og gæði vinnunnar sem að baki honum lá.

Það er því augljóst að sú skýrsla sem Ríkisendurskoðun mun leggja fram um mánaðamótin verður talsvert ólík þeim skýrsludrögum sem lágu fyrir árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka