Til að bæta og jafna kjör fólks og losa það úr fátæktargildrum samfélagsins þarf samhæfingu, lagfæringar eða breyttar áherslur hvað varðar einstaka þætti velferðarkerfisins, atvinnulífs og félagasamtaka. Þetta er m.a. þess sem fram kemur í skýrslunni Farsæld - barátta gegn fátækt sem samstarfshópur um enn betra samfélag, vann og kynnt var í dag. Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn í Reykjavík gefa skýrsluna út.
Íslenskt samfélag hefur sett sér skráðar og óskráðar reglur um virðingu fyrir mannréttindum sem endurspeglast í því að meginþorri landsmanna býr við góðar aðstæður, lífskjör og hagsæld, segir m.a. í niðurstöðum skýrslunnar.
Á hverjum tíma virðist þó hluti landsmanna finna sig í erfiðri stöðu og nýtur ekki ásættanlegra lífsgæða. Hinn óskráði samfélagssáttmáli er í sífelldri mótun. Hér eru þau sjónarmið kynnt að hann skuli fela í sér mannréttindi, samhliða kröfunni um ábyrgð hvers einstaklings, um leið og samfélagið tryggir tækifæri til þátttöku. Stuðningur samfélagsins verði ekki í formi ölmusu heldur stuðli að mannlegri reisn, segir í skýrslunni.
Helstu ábendingar og tillögur samstarfshópsins:
- Gert verði fræðsluátak um hugtakið velferð með áherslu á samfélagssáttmála sem felur í sér mannréttindi , félagsauð, valdeflingu og þátttöku allra.
- Að unnið verði með fátækt á grundvelli gæða fremur en skorts, því komi mat á virkni í stað mats á skerðingu.
- Sett verði á fót sjálfboðamiðlun þar sem félög og stofnanir geti náð til fólks sem vill nýta krafta sína og hæfni í sjálfboðavinnu í því skyni að auka þátttöku og tækifæri til samhjálpar.
- Skilgreindar verði leiðir af hálfu sveitarfélaga til að ívilna frjálsum félagasamtökum sem vilja koma til samstarfs um tækifæri fyrir sjálfboðaliða.
- Hið opinbera komi með enn fjölbreyttari hætti en gert er til móts við atvinnufyrirtæki sem gefa fólki ný tækifæri á vinnumarkaðnum.
- Gert verði samkomulag um skilgreind grunnframfærsluviðmið sem tryggir að enginn einstaklingur eða fjölskylda búi við slíkan skort að varanlegur skaði hljótist af.
- Gert verði samkomulag um skilgreind þátttökuviðmið sem tryggja að samfélagið gefi öllum skýr skilaboð um að öllu fólki sé tryggt tækifæri til þátttöku og búist sé við þátttöku allra.
- Markvisst verði notast við þjónustu samhæfingaraðila þegar einstaklingar eða fjölskyldur þurfa margháttaða aðstoð.
- Velferðarreiknir þarf að líta dagsins ljós.
- Stofna þarf til embættis sérfræðings um málefni fátækra hjá forsætisráðuneyti. Hlutverk hans væri að safna vitneskju og miðla upplýsingum milli stofnana og kerfa, jafnframt því að setja fram tillögur um betri samþættingu velferðarþjónustunnar.
- Samræma þarf tryggingakerfið, félagslega kerfið og skattakerfið á þann veg að heimildagreiðslur skerði ekki grunnframfærslu né hver aðra.
- Tryggja þarf fjölskyldum sem eru undir grunnframfærsluviðmiði og með ungmenni innan við tvítugt í skóla, áframhaldandi barnabætur ásamt húsaleigubótum, gegn framvísun skóla- og ástundunarvottorðs.
- Heilbrigðisþjónusta við börn verði endurgjaldslaus og reglubundnar skylduskoðanir tryggi að börn líði ekki fyrir heilsuleysi í uppvexti sínum vegna fátæktar.
- Efla þarf upplýsingagjöf um íslenska velferðarkerfið til fólks af erlendum uppruna.
- Gera þarf sérstaka athugun á stöðu barna af erlendum uppruna sem njóta aðstoðar velferðarþjónustunnar og leita nýrra leiða til að bregðast við á fyrirbyggjandi hátt.
- EAPN á Íslandi verði falið að gegna hlutverki talsmanns um málefni fátækra.
Í desember 2011 ákváðu fulltrúar Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins í Reykjavík að leita til ýmissa félaga, stofnana og ráða um samstarf til að leita leiða til að bregðast við fátækt hér á landi. Tilefnið á rætur í þeim daglegu viðfangsefnum og erfiðleikum fólks sem Hjálparstarfið og Rauði krossinn fást við í daglegri starfsemi sinni.
Markmiðið með samstarfinu er að safna saman upplýsingum frá þeim ýmsu aðilum sem leitað er samstarfs við og skýrslum og rannsóknum sem varða fátækt á Íslandi. Áformað var að með þessu samstarfi mætti í sameiningu vinna og leggja fram tillögur til aðgerða gegn fátækt.
Leitað var samstarfs við Velferðarvakt Velferðarráðuneytisins, velferðarsvið og velferðarráð Reykjavíkur, félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og fulltrúa EAPN (European Anti-Poverty Network) sem nýlega hefur tekið til starfa hér á landi. En þar taka ýmis frjáls félagasamtök höndum saman í þágu fátækra.
mbl.is/Þorkell Þorkelsson