Skerðingar lækkaðar á 4 árum

Eldri borgarar í Reykjavík.
Eldri borgarar í Reykjavík.

Á næstu dögum verður lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á almannatryggingarbótum, sem Árni Gunnarsson, formaður starfshóps um endurskoðun kerfisins, segir að feli í sér mestu breytingu á kerfinu frá upphafi. Hann segir að þar skipti mestu máli lækkun tekjutenginga bótaflokka.

Einróma samkomulag náðist í hópnum um tillögur sem sendar voru til velferðarráðherra um breytingar á þeim hluta sem varðar ellilífeyrisþega. Ráðuneytið er að ljúka við gerð frumvarps sem mun koma fram á næstu dögum. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar stjórnmálaflokkanna, ASÍ, Samtaka atvinnulífsins, BSRB, BHM, KÍ, lífeyrissjóða, Landssamtaka eldri borgara o.fl. Árni gerði grein fyrir niðurstöðu starfshópsins á þingi ASÍ í dag.

Einn bótaflokkur í stað þriggja

Lagt er til að í fyrsta áfanga verði þrír bótaflokkar, ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót, felldir inn í einn bótaflokk og ákveðin verði ein mánaðarleg fjárhæð ellilífeyris. 

Lagt er til að skerðing framfærsluuppbótarinnar vegna tekna verði í fyrsta áfanga lækkuð úr 100% í 85%, sem taki gildi á næsta ári. Skerðingarmörkin lækki svo áfram í áföngum á fjórum árum þangað til 45% markinu er náð.

Árni sagði að það væri mjög mikilvægt að breyta kerfinu á þann veg að fólk sæi sér hag í því að greiða í lífeyrissjóði. Þannig væri staðan ekki í dag því að skerðingarnar væru króna á móti krónu. Í dag hefði einhleypingur sem fær 73 þúsund krónur úr lífeyrissjóð engan ávinninga af því að hafa greitt í lífeyrissjóð. Ef hann fengi 100 þúsund krónur úr lífeyrissjóð væri ávinningurinn 11 þúsund krónur. Árni sagði að þessar skerðingar væru það miklar að þær væru ógnun við lífeyrissjóðakerfið.

Greiðslur úr lífeyrissjóðum hefjist um leið og sótt er um lífeyri hjá TR

Árni sagði að kostnaður við þessar breytingar yrðu umtalsverðar, en nefndi engar upphæðir í því sambandi. Hann sagði að breytingarnar gætu leitt til þess að fólk færi að taka út greiðslur úr lífeyrissjóðum fyrr en áður og það myndi hafa í för með sér sparnað fyrir Tryggingastofnun. Hann sagði að í því sambandi hefði verið rætt að þegar eldri borgarar sækja um ellilífeyri til Tryggingastofnunar yrðu þeir um leið að leggja fram umsókn um greiðslu úr lífeyrissjóði. Það hefði alla tíð verið stefnan að um leið og lífeyrissjóðirnir efldust myndu þeir taka í auknum mæli að sér að þann þunga í lífeyrismálum sem hvílt hefur á Tryggingastofnun. 

Árni sagði að vestræn samfélög stæðu frammi fyrir miklum vanda sem væri hækkandi meðalaldur þjóða. Ísland stæði betur að vígi en mörg önnur lönd vegna þess að þar væri öflugt lífeyriskerfi og atvinnuþátttaka eldri borgara væri mikil. Það þyrfti hins vegar að reikna út hver væri kostnaður samfélagsins af hækkandi meðalaldri og setja fram tillögur um hvernig ætti að mæta þessum kostnaði.

Vinna að tillögum um barnatryggingar

Árni sagði að starfshópurinn hefði einnig rætt um barnatryggingar og hvernig væri hægt að takast á við fátækt barnafjölskyldna. Undirhópur væri að störfum sem væri að vinna að tillögum á þessu sviði.

Einnig væri starfshópur að vinna að tillögum um starfsorkumat sem komi í stað örorkumats, en þar væri horft á starfsgetu öryrkja í stað örorku.

Árni greindi einnig frá því að starfshópurinn legði til að upphæðir almannatrygginga yrðu ákveðnar á Alþingi með framlagningu fjárlagafrumvarps, en bæturnar eru í dag ákveðnar með reglugerðum. Hann sagði að þessi tillaga væri sett fram að norskri fyrirmynd þar sem góð reynsla væri af því að þingið sjálft tæki ákvörðun um almannatryggingabætur.

„Ég leyfi mér að fullyrða að vinna þessa starfshóps muni skila meiri jákvæðum breytingum og endurnýjun á almannatryggingakerfinu en dæmi eru um,“ sagði Árni.

Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður.
Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert