Skrifað undir í þessum mánuði

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo.
Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo. mbl.is/Ernir

Gert er ráð fyrir að skrifað verið undir samning í þessum mánuði um leigu kínverska fjárfestisins Huang Nubo á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Þetta er haft eftir Huang á fréttavef kínverska dagblaðsins China Daily í gær. Leigusamningurinn muni kosta 6 milljónir dollara en verkefnið við uppbyggingu á jörðinni 100 milljónir dollara næstu fjögur árin en hann hyggst koma þar meðal annars upp hóteli, kappreiðabraut og orlofshúsum samkvæmt fréttinni.

Farið er yfir Grímsstaðamálið, Huang hafi byrjað að kaupa upp land vegna verkefnisins í ágúst á síðasta ári en síðan hafi íslensk stjórnvöld haft afskipti af málinu sem leiddi til þess að honum hafi verið boðið að leigja jörðina í stað þess að kaupa hana. Haft er eftir honum að hann væri ánægður með samninginn þar sem hann gerði ráð fyrir leigu jarðarinnar í 99 ár og yrði líklega endurnýjaður sjálfkrafa.

Reiknar ekki með miklum hagnaði

Fram kemur að Huang hafi fengið uppkast að leigusamningum í hendur í september og að hans fólk væri enn að fara yfir hann. Hugsanlega yrðu gerðar einhverjar breytingar á honum. Hann vonist til þess að seljendur jarðarinnar geti mætt við undirritun samningsins sem fyrirhuguð sé í Beijing höfuðborg Kína en síðan ætli hann að halda blaðamannafund á Íslandi í kjölfarið.

Ennfremur er haft eftir Huang að hann geri ekki ráð fyrir að hagnast mjög mikið á fjárfestingunni á Íslandi en hann sé hins vegar sannfærður um að verkefnið eigi eftir að „uppfæra“ íslenskan ferðamannaiðnað. Hliðstæð verkefni séu í pípunum á hinum Norðurlöndunum. „Eftir áratug mun heimurinn verða vitni að því að maðurinn frá Gulafljóti reki ferðaþjónustu um allan heim,“ segir Huang.

Þá er haft eftir Huang að hann telji íslenska samninginn verða hvatningu fyrir önnur kínversk einkafyrirtæki og sönnun þess að það sé rétt skref að horfa út fyrir Kína og eiga í viðskiptum á heimsvísu. „Efnahagsástandið í heiminum og verndarhyggja hafa gert kínverskum fyrirtækjum erfitt fyrir með að leita eftir tækifærum utan Kína og enn erfiðara fyrir kínverska fjárfesta,“ segir hann.

Frétt China Daily

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka