Hæstiréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Vesturlands og viðurkennt kröfu Borgarbyggðar um endurútreikning ólögmæts gengistryggðs láns hjá Arion banka. Með honum er staðfest að ekki megi breyta vöxtum á lánunum afturvirkt og gildi samningsvextir á móti fullnaðarkvittunum.
Arion banki lét endurreikna lánið frá upphafstíma þess með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Borgarbyggð mótmælti þessu og taldi að fullnaðarkvittun ylli því að frekari krafa glataðist, enda hefði hver og ein greiðsla á lánstímanum falið í sér fullnaðargreiðslu af hans hálfu.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Arion banki gæti ekki krafið Borgarbyggð um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Ekki væri með almennum lögum hægt að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem var í gildi þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt.