Tekist á um sameiningu

Bæjarmörk hins nýja sveitarféalgs.
Bæjarmörk hins nýja sveitarféalgs. mbl.is

Á morgun ganga íbúar Garðabæjar og Álftaness til kosninga um sameiningu sveitarfélaganna tveggja en atkvæðagreiðslan fer fram samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagaráðs.

Ef sameining Garðabæjar og Álftaness verður að veruleika stendur til að hið nýja sameinaða sveitarfélag muni bera nafnið Garðabær. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga voru íbúar Garðabæjar tæplega 11.300 talsins á síðasta ári en á sama tíma voru íbúar Álftaness rúmlega 2.400 talsins. Gera má því ráð fyrir að íbúar Garðabæjar verði tæplega 14.000 talsins ef af sameiningunni verður. Þá má geta þess að hið sameinaða sveitarfélag mun eiga landsvæði sem nemur um 4.700 hekturum.

Ráðgefandi hverfisstjórn

Ýmsar breytingar verða á stjórnsýslu sveitarfélaganna ef þau sameinast í nýtt sveitarfélag. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að kosið verði um nýja bæjarstjórn fyrr en í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara 2014. Þangað til er stefnt að því að stjórn hins sameinaða sveitarfélags verði í höndum núverandi bæjarstjórnar Garðabæjar en hinsvegar muni bæjarstjórn Álftaness starfa út kjörtímabilið sem ráðgefandi hverfisstjórn með áheyrnarfulltrúa í nefndum Garðabæjar. Þá hefur ekki ennþá verið tekin ákvörðun um hversu margir bæjarfulltrúar munu skipa bæjarstjórn hins sameinaða sveitarfélags en í dag eru sjö fulltrúar í sveitarstjórnum Garðabæjar og Álftaness. Einnig er gert ráð fyrir því að skrifstofur sveitarfélaganna verði sameinaðar og að rekið verði eitt þjónustuver fyrir alla íbúa hins nýja sveitarfélags í ráðhúsi Garðabæjar.

Með sameiningu sveitarfélaganna tveggja er einnig gert ráð fyrir hagræðingu í yfirstjórn sem gæti numið allt að 120 milljónum króna á ári. Þar að auki er einnig stefnt að því að sameina þjónustumiðstöðvar Garðabæjar og Álftaness á einum stað. Engin áform eru hinsvegar um breytingar á skipan skólamála.

Skuldir Álftaness niðurfærðar

Skuldir Álftaness námu um 7,2 milljörðum króna við lok árs 2009. Náðst hefur samkomulag um að niðurfæra skuldir sveitarfélagsins um tæpa fjóra milljarða gegn því skilyrði að það sameinist öðru sveitarfélagi. Þá er gert ráð fyrir því að skuldir Álftaness muni nema um 3,2 milljörðum króna við lok þessa árs. Gert er ráð fyrir því að skuldir og skuldbindingar hins sameinaða sveitarfélags muni því nema um 7,5 milljörðum króna við lok næsta árs en stefnt er að því að lækka skuldirnar niður í um það bil fimm miljarða króna á fyrsta kjörtímabili með hærri framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og auknum skatttekjum.

Áætlað er að rekstrarafgangur hins sameinaða sveitarfélags verði um 412 milljónir á næsta ári. Við sameininguna verða álagningarprósentur bæði útsvars og fasteignaskatts samræmdar frá og með 1. janúar 2013. Stefnt er að því að álagningarprósenturnar verði þær sömu og nú eru við í lýði í Garðabæ en álagningarprósenta útsvars er þar nú 13,66%.

Þá er reiknað með því að eigið fé hins nýja sveitarfélags styrkist á tímabilinu til ársins 2017 en á ætlanir gera ráð fyrir að það nemi rúmum 12,3 milljörðum við árslok 2017 í samanburði við rúmlega 9,7 milljarða króna á árinu 2013.

Öflugra og sterkara sveitarfélag

„Ég er hlynntur sameiningu. Við erum búin að vera að ræða þessi mál í tvö ár og bora okkur ofan í allar tölur og þætti sem skipta máli í þessu og ég er algjörlega sannfærður um það að þetta sé skynsamlegt og heilladrjúgt skref fyrir Garðbæinga að stíga,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og bætir við að eftir sameininguna myndist bæði öflugra og sterkara sveitarfélag.

„Það sem við höfum haldið fram sem svona sterkustu rökunum fyrir sameiningu er að í fyrsta lagi er þetta ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir hinn almenna Garðbæing. Það er búið að ná skuldunum það vel niður á Álftanesi að þær munu ekki íþyngja Garðbæingum og þjónustan verður alveg sú sama og álögurnar líka. Auk þess er búið er að taka verulega til í rekstri Álftaness þannig að það samfélag á alveg að geta staðið undir sér sjálfbært,“ segir Gunnar.

Þá bendir Gunnar á að einnig skipti verulegu máli í þessari umræðu að með sameiningu sveitarfélaganna tveggja sé skipulagsvaldið áfram inni í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi. „Við erum með sömu hugsun í skipulagsmálum og Álftnesingar, að hafa þarna lágreista byggð og varðveita útivistarsvæðin, og við myndum þá halda áfram þeirri hugsun og ráða yfir skipulaginu. Ef Reykjavík kemur þarna með skipulagsvaldið þá vitum við ekkert hvort komi þarna flugvöllur og hvernig menn muni þróa byggðina áfram.“

Hafa snúið við rekstri Álftaness

„Ég er alveg sannfærður um það að kostirnir eru töluvert fleiri, það er margt sem mælir með sameiningunni. Við teljum í fyrsta lagi að stærra og öflugra samfélag veiti okkur meiri möguleika til að efla þjónustuna,“ segir Snorri Finnlaugsson, bæjarstjóri Álftaness.

Að sögn Snorra er bæjarstjórn Álftaness búin að vinna í skuldaleiðréttingu sveitarfélagsins sl. þrjú ár. „Við höfum verið hér undir fjárhaldsstjórn frá því í febrúar 2010 og höfum verið með það meginmarkmið að koma skikki á skuldirnar. Þar fyrir utan höfum við algjörlega snúið við rekstri sveitarfélagsins og hann er kominn í mjög gott horf myndi ég segja, við erum réttum megin við strikið bæði í ár og í fyrra,“ segir Snorri.

Aðspurður hvort farið verði í viðræður við Reykjavík ef ekki verður af sameiningu Garðabæjar og Álftaness, segir Snorri að reikna megi með því. „Ég vona auðvitað að til þess komi ekki því ég er algjörlega sannfærður um að sameining við Garðabæ er besti kosturinn og verði því samþykktur. Ef það verður hinsvegar ekki, hef ég sagt að það séu tvær leiðir til fyrir Álftnesinga. Sveitarstjórnin myndi byrja á því að ræða við annað sveitarfélag um frjálsa sameiningu sem endi þá með því að íbúarnir segi sitt álit í íbúakosningu. En það er alveg til í dæminu og lagalega mögulegt að ráðuneytið hreinlega semji við eitthvert annað sveitarfélag um að sameinast sveitarfélaginu Álftanesi, þá hefðu íbúarnir ekkert um það að segja og það finnst mér slæmt. Því þurfa íbúarnir að nýta rétt sinn á morgun og mæta og kjósa,“ segir Snorri.

Eðlilegt að kröfuhafar axli ábyrgð

„Ég held að þessi sameining sé í raun og veru hönnuð af og fyrir kröfuhafana. Það sem er að gerast er það að kröfuhafar Álftaness eru ekki að gefa neitt eftir nema kannski einhverjar vaxtagreiðslur upp á 300 milljónir, þeir fá allt sitt,“ segir Jón Árni Bragason, verkfræðingur og íbúi í Garðabæ. Hann segir að verið sé að setja fram leik að tölum fyrir venjulega kjósendur til þess að telja þeim trú um það að þetta sé hið besta mál fyrir Garðbæinga.

„Í talnaleikfiminni sem framkvæmd er í þessari skýrslu [skýrslu R3-Ráðgjafar ehf.] er verið að ofmeta eignir Álftaness og vanmeta rekstrarkostnað. T.d. eins og verðið á þessari sundlaug sem eign, það er ekki hægt að selja hana og hún er einskis virði í sjálfu sér nema sem sundlaug. Á sama tíma er talsverður hluti af óbyggðu svæði úti á Álftanesi í einkaeigu þannig að þó svo að af sameiningu yrði þá væri Garðabær ekki búinn að tryggja sér yfirráð yfir því svæði,“ segir Jón Árni og bætir við: „Garðabær þarf ekki aukið byggingarsvæði. Það er búið að skipuleggja tólf eða fimmtán þúsund manna byggð á Garðaholti sem er nú þegar í Garðabænum, fyrir utan Urriðaholtið sem er einungis rétt byrjað að byggja.“

Að sögn Jóns Árna telur hann ekkert óeðlilegt við sameiningu á jafnræðisgrunni og segist hann hingað til ekki hafa verið á móti sameiningu við Álftanes en honum þyki þó eðlilegt að þeir sem hafi lánað grimmt í lítið sveitarfélag, sem stendur ekki undir greiðslubyrðinni, eigi að taka skellinn af því. Það eigi ekki alltaf að bjarga kröfuhöfunum með því að færa byrðarnar yfir á stærri samfélagshóp.

Óttast yfirkeyrslu í skipulagsmálum

„Í fyrsta lagi er Álftanes mjög sérstakt sveitarfélag, sveit í borg, með mikið af opnum svæðum þar sem eru varpfuglar, óspilltar fjörur og gönguleiðir. Ég er mjög hræddur um að Álftnesingar verði yfirkeyrðir í skipulagsmálum af byggingaglöðum Garðbæingum þegar þeir hafa yfirtekið sveitarfélagið, því að það er alveg klárt að það er bæjarstjórnin í Garðabæ sem yfirtekur stjórnina á Álftanesi,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, íbúi á Álftanesi.

Þór bendir á að hann hefði viljað að í samningunum um sameiningu sveitarfélaganna tveggja væri ákvæði um að Álftnesingar hefðu áfram sjálfdæmi, að því leyti sem hægt er, í skipulagsmálum. „Hitt atriðið er skólinn. Það hefur sýnt sig í öllum sameiningum sveitarfélaga hingað til að það hefur því miður aðeins verið spurning um tíma hvenær skóla minni sveitarfélagsins er lokað og nemendurnir keyrðir í skólann. Það er ekkert í þessum samningi við Garðabæ um það að Álftnesingar hafi eitthvað um það að segja hvort það verði áfram skóli á Álftanesi og þegar skólinn er farinn, ef hann fer, þá er hjartað í samfélaginu farið,“ segir Þór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert