Munu taka grönnum sínum vel

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ

„Þetta var auðvitað tæpt og maður skilur það vel,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, en 53,11% Garðbæinga samþykkti að sameinast Álftanesi. Hann segir mikið verk að vinna en ráðist verði í að láta sameininguna ganga vel undir nafni Garðabæjar.

Gunnar segir ljóst að margir hafi verið í vafa um sameininguna. Þeir hafi viljað halda óbreyttu ástandi. „Maður skilur það vel. Þetta er stór ákvörðun og íbúar vita hvað þeir hafa; gott og sterkt sveitarfélag.“

Hann á þó ekki von á því að það þurfi sérstaklega að sætta þann hóp sem ekki vildi sameiningu. „Þetta er lýðræðisleg niðurstaða og ég á ekki von á öðru en að Garðbæingar taki grönnum sínum vel og menn búi til enn sterkara samfélag og sterkara sveitarfélag. Snúi bökum saman.“

Eins og áður segir mun hið nýja sveitarfélag bera nafnið Garðabær. Gunnar segir að nafnið Álftanes hverfi þó ekkert, það verði hverfi í Garðabæ eins og t.d. Arnarnes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert