„Þetta var mjög afgerandi“

Snorri Finnlaugsson
Snorri Finnlaugsson

„Við erum mjög sátt við að þetta skyldi samþykkt, að því var stefnt,“ segir Snorri Finnlaugsson, bæjarstjóri Álftaness, en í kvöld var samþykkt sameining sveitarfélagsins við Garðabæ. Kosningin var mjög afgerandi á Álftanesi en 87,6% samþykktu þar sameininguna.

Í Garðabæ var munurinn talsvert minni á milli þeirra sem vilja sameina sveitarfélögin og ekki, en þar var sameiningin samþykkt með 53,11%. Snorri bendir þó á að þarna séu um 440 atkvæði og því sé um ágætis mun að ræða. Hann segir einnig, að ef litið er á þetta í heildina hafi um sextíu prósent íbúa beggja sveitarfélaga viljað sameiningu.

Spurður út í næstu skref segir Snorri að nú taki við undirbúningir við að samþætta alla ferla. Því þarf að vera lokið fyrir 1. janúar en þá er stefnt að formlegri sameiningu. Þá mun bæjarstjórn Garðabæjar taka yfir sameinað sveitarfélag og verður bæjarstjórn fram að næstu kosningum.

Bæjarstjórn Álftaness verður þess í stað ráðgefandi hverfisstjórn og mun eiga fulltrúa í nefndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert