Ekkert samkomulag um makrílinn

Ekki náðist samkomulag í makríldeilunni á fundi strandríkja sem lauk í London í dag samkvæmt tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Fram kemur að fulltrúar Íslands hafi í því augnamiði að þoka málum áfram lagt til að öll strandríkin sem aðild eiga að deilunni legðu fram nýjar tillögur um skiptingu heildarafla en ekki var tekið undir það.

„Þegar fyrir lá að þau væru ekki tilbúin að leggja fram nýjar tillögur og ljóst var að ekki næðist samkomulag um skiptingu heildarafla lagði Ísland til, sem bráðabirgðaráðstöfun, að heildarafli yrði ákveðinn 542.000 tonn í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Ekki reyndist hljómgrunnur meðal strandríkjanna um slíka bráðabirgðaráðstöfun,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Fram kemur að á fundinum hafi á hinn bóginn verið samstaða um að nauðsynlegt væri að efla vísindalegan grunn stofnmats og ráðgjafar um makrílveiðar og var ákveðið að senda beiðni til ICES í þeim efnum. Þá var ennfremur ákveðið að efla samstarf um eftirlit með uppsjávarveiðum í Norðaustur Atlantshafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka