Segir að ýmsir hafi viljað losna við sig

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segist hafa fundið fyrir þrýstingi frá aðilum úr samfélaginu sem hafi viljað losna við hann úr starfi. Hann segir að störf sín hafi einkennst af heilindum, en bæði menn úr stjórnmálalífi og viðskiptum hafi annaðhvort verið ósammála hans nálgun eða aðferðum í starfi.

Þetta kom fram í ræðu sem Gunnar flutti á fundi Framsóknarflokksins í Reykjavík, en í henni fjallaði Gunnar um bankahrunið, aðdraganda þess og eftirmála. 

Gunnar segist telja að enn skorti á siðferðis- og réttlætiskennd hér á landi og að menn séu enn í sömu gömlu skotgröfunum. Hvetur hann aðila í samfélaginu til þess að taka gagnrýni með jákvæðum hætti í stað þess að sýna þeim sem gagnrýna yfirlæti. Það sé meginforsenda þess að þjóðin rísi að nýju. 

Hrun bankanna var óhjákvæmilegt

Gunnar vildi ekki tjá sig á nokkurn hátt um brottrekstur sinn frá Fjármálaeftirlitinu þar sem um dómsmál væri að ræða. Hann sagði þó að einn daginn myndi hann gera hreint fyrir sínum dyrum og sagði í léttum tón að hann myndi gera það í ævisögu sinni.

Gunnar var ráðinn til Fjármálaeftirlitsins eftir bankahrunið. Sagði hann fall bankanna hafa verið óumflýjanlegt og að lánsfjárkreppa hefði einungis hjálpað til að flýta fyrir hruni bankanna í stað þess að valda því. Viðskiptamódelið hafi í meginatriðum ekki gengið upp og lánasafn bankanna hafi verið allt of veikt til þess að tryggja rekstur þeirra til lengri tíma. 

Gunnar segir að ör vöxtur árið 2005 hafi átt að kveikja viðvörunarbjöllur en eftirlit og fjölmiðlar hafi brugðist með andvaraleysi sínu. Segir hann að Fjármálaeftirlitið hafi átt við ramman reip að draga þar sem bankakerfið hafi stækkað margfalt á nokkrum árum en á sama tíma hafi Fjármálaeftirlitið einungis stækkað um helming. Þekkingin hafi þar að auki ekki verið til staðar inni í eftirlitinu þar sem bankarnir hafi ávallt boðið öflugum starfsmönnum eftirlitsins betur launað starf. Það hafi átt sinn þátt í því að starfsmannavelta eftirlitsins hafi verið 25%. 

Gagnrýndi ytri endurskoðendur bankanna

Gunnar ræddi sérstaklega um ábyrgð ytri endurskoðenda bankanna. Hann segir að reikningsuppgjör bankanna hafa verið rangt og ábyrgð endurskoðenda „gríðarlega“. Þær upplýsingar sem bárust í milliuppgjörum árið 2007 og 2008 hafi verið langt frá því að gefa rétta mynd af stöðunni. Fyrir vikið hafi ekki verið nokkur leið fyrir leikmenn að greina stöðuna rétt. 

Telur Gunnar að jákvæð skref hafi verið tekin á síðustu árum sem auðveldi eftirlit en tilgreinir að enn megi setja regluverk sem auðveldi frekara eftirlit. Nefndi hann t.a.m. að vert væri að aðskilja viðskipta- og fjárfestingahlið bankanna. 

Gunnar gagnrýndi jafnframt að Fjármálaeftirlitinu hafi ekki verið veittar heimildir fyrr en fyrir ári til að hafa eftirlit með skilanefndum bankanna.

Eignaðist marga óvini í starfinu

Hann segist hafa eignast marga óvini úr viðskiptalífinu vegna þeirra mála sem send hafi verið til sérstaks saksóknara. „Ýmis öfl“ hafi haft hagsmuni af því að hann myndi hætta í starfi og hann hafi fundið fyrir „þrýstingi“ m.a frá stjórnmálamönnum sem ekki voru sammála starfsaðferðum eftirlitsins í tíð hans. 

Jafnframt tilgreindi hann að hann teldi réttlætis- og siðferðiskennd almennt enn ábótavant hér á landi. Nefndi hann máli sínu til stuðnings stuld á hugbúnaði. Um 48% notuðust við stolinn hugbúnað hérlendis á meðan hlutfallið væri um 25% á hinum Norðurlöndunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka