Endurupptaka dómsmála er ekki algeng hér á landi. Af þeim 30 beiðnum um endurupptöku opinberra mála sem komu inn á borð Hæstaréttar tímabilið 2000 til 2012 hafa aðeins tvær verið samþykktar.
Önnur þeirra var samþykkt á þessu ári en það er endurupptaka á svokölluðu Vegas-máli frá árinu 1997. Í því máli var Sigurþór Arnarson dæmdur saklaus í héraðsdómi af líkamsárás sem leiddi til mannsláts en sakfelldur í Hæstarétti.
Hann kærði dóminn til Mannréttindadómstóls Evrópu sem úrskurðaði 2003 að Hæstiréttur hefði brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með dómnum. Mál Sigurþórs er komið aftur á dagskrá Hæstaréttar og verður flutt 28. nóvember næstkomandi. Þá var ein beiðni um endurupptöku í einkamáli samþykkt í fyrra.