Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fimm karlmenn, fædda 1980 til 1990, í fangelsi fyrir skjalafals, umboðssvik, fjárdrátt og hylmingu. Þyngsti dómurinn var þrjú og hálft ár, þá þrjú ár, fimmtán mánuðir, níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Þáttur hvers og eins var mismunandi en mönnunum tókst að hafa af Íbúðalánasjóði og eignarhaldsfélagi samtals tugi milljóna króna á árinu 2009.
Þyngsta dóminn hlaut Helgi Ragnar Guðmundsson, fæddur í mars 1980, en við ákvörðun refsingar hans var litið til þess að brot hans voru stórfelld, en um mjög mikil verðmæti var að ræða. Brotavilji hans hafi verið styrkur og einbeittur og hann framdi brot sín í félagi við aðra. Hann er sagður hafa skipulagt brotin en hann hann hafði bæði tilskilda þekkingu og mikla reynslu í fasteignaviðskiptum og fyrirtækjarekstri.
Samkvæmt því sem kemur fram í dómnum aflaði Helgi Ragnar upplýsinga og gagna um félög og fasteignir þannig að unnt yrði að líkja eftir undirritunum og falsa þannig þau skjöl sem notuð voru, útbjó skjölin sem notuð voru og lagði fyrir félaga sína að undirrita skjölin í eigin nafni og falsa undirritanir annarra á skjölin, þar á meðal votta, og gaf fyrirmæli um hvar ætti að framvísa skjölunum.
Þá hlaut Jens Tryggvi Jensson, fæddur í júlí 1989, þriggja ára fangelsi. Litið var til þess við ákvörðun refsingar að brotin voru stórfelld, um mikil verðmæti að ræða og þá var hann einnig sakfelldur fyrir hylmingu. Þá segir að brotavilji Jens hafi verið styrkur og einbeittur og brot hans verið framið í félagi við Helga Ragnar.
Þó segir að Jens hafi hvorki haft þekkingu né burði til að skipuleggja og útfæra jafn umfangsmikið og flókið brot og hér um ræðir og er ljóst að hann var ekki skipuleggjandi þess. Var framburður hans um að hann hefði sætt þvingunum lagður til grundvallar.
Aðrir fengu vægari dóma en ekki þótti sannað að þeir hefðu haft neinn ávinning af brotunum, né að þeir hafi haft þekkingu til að skipuleggja þau. Það hafi alfarið verið í höndum Helga Ragnars.