Leitað að manni í Skagafirði

Merki Landsbjargar
Merki Landsbjargar

Um níuleytið í kvöld voru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Skagafirði kallaðar út til leitar að manni sem saknað er í nágrenni Þorljótsstaðafjalls. Viðkomandi fór við annan mann í fjárleitir í morgun og ætluðu þeir að hittast við upphafsstað núna seinnipartinn.

Þegar hann skilaði sér ekki var hóf samferðafélagi mannsins eftirgrennslan en komst ekki upp fjallið aftur vegna veðurs. Búið er að kalla út göngumenn, fjórhjól, jeppa og vélsleða til leitar en óveður er á svæðinu, mikið rok og skafrenningur. „Í fyrstu viðbrögðum sendum við út 20 - 30 manns. Síðan verður metið eftir það hvort þarf að bæta við mannskap. Það er ekkert flugveður fyrir þyrlu, þarna er vonskuveður,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu.

Hann segir skyggni svo til ekkert og í svona aðstæðum þurfi 4-5 menn í stað eins í „venjulegum aðstæðum“.„Við könnum líklegustu staði þar sem manninn  gæti verið að finna, t.d. staði þar sem hann gæti verið í skjóli og þekktar gönguleiðir og gefum okkur 1 - 1 1/2 tíma í það. Við vitum ekki hvernig útbúnaður mannsins er, en við gerum ráð fyrir að hann hafi verið vel búinn þar sem hann var við fjárleit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka