Staðfestu vilja til þátttöku

Loftrýmisgæsla
Loftrýmisgæsla mbl.is/RAX

Svíþjóð og Finnland staðfestu í dag á fundi norrænu utanríkisráðherranna í Helsinki í Finnlandi vilja sinn til þátttöku í loftrýmisgæslu við Ísland á árinu 2014. Tillagan var sett fram í Stoltenbergskýrslunni frá árinu 2009 en hún fjallar um hvernig Norðurlöndin geti aukið samvinnu og samlegð í utanríkis- og öryggismálum.

Í samþykktri yfirlýsingu utanríkisráðherra landanna segja þeir að þeir telji loftrýmisgæslu Svía og Finna í rökréttu framhaldi af því nána samstarfi á sviði æfinga sem Svíþjóð, Noregur og Finnland hafi átt með sér. Formleg ákvörðun í Finnlandi og Svíþjóð, þar með talið með aðkomu þjóðþinganna, verður fyrst tekin eftir að Atlantshafsbandalagið hefur fjallað um málið.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að norrænu utanríkisráðherrarnir hafi lýst ánægju með hversu margar af tillögum Stoltenberg-skýrslunnar um aukið norrænt samstarf væru komnar til framkvæmda. Sem dæmi um það sé væntanlegt samstarfsnet norrænna sérfræðinga á sviði netöryggis og áætlanir um sameiginlegar norrænar sendiskrifstofur í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku. Þá lýstu Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland áhuga á að sameinast um sendiráð í Reykjavík.

Norrænu utanríkisráðherrarnir hafa þungar áhyggjur af útþenslu ísraelskra landnemabyggða á hernumdu svæðunum, sem brjóta í bága við alþjóðalög og eru stærsta hindrunin fyrir tveggja ríkja lausn.

Ráðherrarnir ræddu ástandið í Mið-Austurlöndum og lýstu miklum áhyggjum vegna áframhaldandi blóðsúthellinga í Sýrlandi. Mikil hætta sé  á að átökin breiðist út, líbanskir stjórnmálaleiðtogar verði að standa saman gegn þrýstingi þeirra sem grafi undan stöðugleika á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert