Verjendur sakborninga í Al-Thani-málinu svonefnda fóru fram á það við málflutning fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að málatilbúnaði ákæruvaldsins verði vísað frá dómi. Meðal annars var nefnd sú ástæða að sérstakur saksóknari hafi látið í ljós án fyrirvara í upphafi rannsóknar afstöðu sína.
Þrír sakborningar af fjórum mættu í héraðsdóm í morgun, þ.e. Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson. Hreiðar Már Sigurðsson var hins vegar ekki sjáanlegur.
En það var verjandi Hreiðars Más sem hóf leikinn og gerðu raunar allir aðrir lögmenn hans málflutning að sínum. Hörður Felix Harðarson gerði þá kröfu að málinu verði vísað frá í heild sinni. Hann benti á að ekkert þeirra mála sem sérstakur saksóknari fæst við hefði fengið viðlíka umfjöllun og Al-Thani-málið og lagði hann fram 92 skjöl sem hafa að geyma umfjöllun fjölmiðla um málið. Sagði hann það þó aðeins sýnishorn.
Hörður Felix sagði að umfjöllunin hefði verið á einn veg. Hlutabréfakaupum Al-Thani sé lýst sem blekkingum, fullyrt að hann hafi verið leppur og að um sé að ræða eitt af lykilmálum sérstaks saksóknara. Það hafi verið barið inn í þjóðarsálina að sakborningar í málinu séu sekir.
Þá vísaði hann til þess að í viðtali við fjölmiðla þegar rannsókn málsins hófst hafi Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagt að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða. Enginn fyrirvari hafi verið gefinn og greinilega sagt að markmið viðskiptanna hafi verið að hafa áhrif á virði bréfa í Kaupþingi. Þar með hafi verið um markaðsmisnotkun.
Hörður sagði þetta ganga gegn lögum og reglum. Ákæruvaldið megi ekki láta frá sér afstöðu sína til máls þegar það er í rannsókn. Hans sé að rannsaka og fá það sanna í ljós, gæta hlutlægni í hvívetna. Sakborningar eigi rétt á því að vera saklausir þar til sekt sannist.
Um sé að ræða brot á réttarreglum og það eitt eigi að nægja til þess að málinu sé vísað frá dómi.
Hörður minntist einnig á skýrslu sem saksóknari í málinu lagði fram við þingfestingu, 127 síðna skjal. Hann sagði það skriflegan málflutning, sem lög heimili ekki, og þar séu jafnframt engir fyrirvarar settir og hiklaust haldið fram sekt sakborninga. Ekki sé tekið mið af ábendingum sakborninga við skýrslutökur og ljóst að skýrslan hafi ekki verið unnin til að leiða hið rétta í ljós, aðeins til að sýna fram á sekt ákærðu og tortryggja gögn sem lögð voru fram af þeim.
Hann fullyrti að rannsakendur sem gengu til þessa verks hefðu aldrei getað ályktað eins og þeir gerðu hefðu þeir haft bæði augun opin. Eftir standi að ákæruvaldið hafi brotið gegn skyldum sínum um hlutlægni. Hann hafi gefið frá sér hlutlæga afstöðu til málsins á meðan rannsókn stóð.
Þá vísaði hann í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem þetta er tekið fyrir og sagt afar alvarlegt, þ.e. að ákæruvaldið gefi frá sér afstöðu þegar mál eru til rannsóknar.
Hörður sagði jafnframt að skýrsla sérstaks saksónara brjóti í bága við jafnræðisregluna en í henni, þ.e. reglunni, felist krafa um að málsaðilar hafi jafnan rétt til þess að koma á framfæri kröfum, rökum og fleiru. Um sé að ræða gróft brot þar sem sakborningar eigi ekki kost á að skila tveimur greinargerðum, eins og í tilviki sérstaks saksóknara. Jafnframt brjóti skýrslan gegn þeirri meginreglu að málflutningur eigi að vera munnlegur.
Hann sagði ekki hægt að bæta úr þessum annmörkum fyrir dómi og því eigi að vísa málinu frá.
Eftir hádegið er svo komið að Birni Þorvaldssyni, saksóknara hjá sérstökum saksóknara, að flytja mál sitt.
Í meðfylgjandi knippi má finna fréttir af framgangi málsins, greinargerðum sakborninga og ákærunni.