Hlutfall kvenna sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi eða minna er töluvert hærra á Suðurlandi og Vestfjörðum en annars staðar á landsbyggðinni. Menntunarstig á höfuðborgarsvæðinu er umtalsvert meira en annars staðar á landinu.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tölum Byggðastofnunar um menntun fólks eftir landshlutum og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.
Á Vestfjörðum og Suðurlandi kemur á móti að hlutfall kvenna sem hafa lokið grunnháskólanámi er um tvöfalt hærra en karla. Þegar litið er til heildarinnar er hæsta hlutfall íbúa með aðeins lágmarksmenntun að finna á Suðurnesjum.
Árni Ragnarsson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, kann ekki skýringar á muninum á körlum og konum á Suðurlandi og Vestfjörðum. Hann segir tölurnar annars í raun staðfesta í grófum dráttum það sem menn töldu sig vita, sérstaklega um muninn á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.