Arion banki endurreiknar lán

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Arion banki hefur hafið endurútreikning tiltekinna ólögmætra gengistryggðra lána sem eiga sér sambærilega greiðslusögu og lán sem nýlegur Hæstaréttardómur í máli Borgarbyggðar fjallaði um.

Um er að ræða lán til einstaklinga og minni fyrirtækja þar sem fullnaðarkvittun um greiðslu á vöxtum og höfuðstólsafborgun liggur fyrir samkvæmt skilmálum lánsins, óháð lánstíma.

Ennfremur hefur bankinn ákveðið að endurreikna lán þar sem samið var um greiðslu vaxta eða fastrar fjárhæðar á hverjum gjalddaga.

Arion banki áætlar að innan þriggja mánaða verði endurútreikningi framangreindra lána að mestu lokið og niðurstaðan verði aðgengileg í netbanka viðskiptavina.

Að mati bankans liggur enn ekki fyrir hvernig endurreikna skuli lán sem voru fryst tímabundið hvað varðar bæði vexti og afborgun eða ef vanskilum var bætt við höfuðstól. Arion banki mun engu að síður endurreikna þessi lán fyrir þau tímabil þar sem fullnaðarkvittun vaxtagreiðslu liggur fyrir samkvæmt upphaflegum skilmálum lánanna og mun endurútreikningur þeirra hefjast í beinu framhaldi, segir í tilkynningu frá Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka