Biskup kaþólskra lét eyðileggja bréf

Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna hafði fá skrifleg gögn að styðjast …
Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna hafði fá skrifleg gögn að styðjast við. mbl.is/Kristin

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi gagnrýnir kirkjuna harðlega fyrir skráningu skjala, en nefndin fann lítið af skriflegum gögnum um starfsemi Landakotsskóla. Fram kemur í skýrslunni að Jóhannes Gijsen, sem var biskup 1996-2007, lét eyðileggja bréf sem forveri hans hafði beðið um að yrði varðveitt.

Verkefni nefndarinnar var ekki bara að ræða við þá sem voru við nám í Landakotsskóla og í sumarbúðum á vegum kaþólsku kirkjunnar heldur ekki síður að skoða viðbrögð kirkjunnar við ásökunum um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi.

Flestir sem sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi þögðu um það sem þau upplifðu og kvörtuðu ekki undan því á sínum tíma. Það átti þó ekki við um alla. Nokkrar kvartanir komu fram á árunum 1988-2010. Þegar nefndin kallar eftir upplýsingum frá kirkjunni um hvernig tekið var á þessum kvörtunum kemur nefndin að tómum kofa. Það er sáralítið til af skriflegum gögnum.

Skráðu ekki kvartanir sem bárust

Að því er varðar kynferðislegt ofbeldi þá bendir rannsóknarnefndin á nokkur mistök eða vanrækslu varðandi viðbrögð við ásökunum sem fram komu á tímabilinu 1988-2010. Það er niðurstaða nefndarinnar að í einu tilviki hafi nunna og í öðru tilviki prestur vanrækt að tilkynna biskupi um ásakanir sem staðfest er að lýst var á þeim tíma.

Nefndin telur að Alfred Jolson, sem var biskup kaþólsku kirkjunnar á árunum 1988-1994, hafi í þremur tilvikum vanrækt þá skyldu sína að skrá ásökun og upplýsingar um ofbeldi, svo og þá skyldu sína að tryggja að fram færi sjálfstæð rannsókn á ásökunum og að gripið yrði til réttra viðbragða meðan rannsókn fór fram og í kjölfar þess að niðurstöður lægju fyrir.

Létu ekki fara fram rannsókn þrátt fyrir kvörtun

„Rannsóknarnefndin telur að biskupinn frá 1996-2007 [Gijsen] hafi í einu tilviki gert mistök með því að eyðileggja bréf sem forveri hans hafði falið kanslara að varðveita í biskupsembættinu,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Í skýrslunni kemur fram að maður hefði á sínum tíma komið til Jolsons biskups og átt með honum fund. Séra Jakob Roland sagði fyrir nefndinni að maðurinn hefði „haft einhverja slæma reynslu með séra Georg í skólanum“. Hann hefði viljað koma þessum upplýsingum á framfæri til að tryggja að samskonar myndi ekki gerast aftur. Hann hefði afhent biskupi umsal sem hefði verið geymt í skjalasafni biskupsembættisins. Séra Jakob sagðist hafa afhent Gijsen umslagið eftir að hann tók við biskupsembættinu. Þegar Gijsen var búinn að kynna sér efni þess hefði hann eyðilagt bréfið.

Nefndin segir einnig að Gijsen í þremur tilvikum vanrækt skyldu sína að skrá ásökun og upplýsingar um ofbeldi. Í einu þessara tilvika hafi Gijsen að auki vanrækt skyldu sína að tryggja að fram færi sjálfstæð rannsókn á ásökunum og að gripið yrði til réttra viðbragða og í öðru tilviki þá skyldu að meta hvort þörf væri á sérstakri rannsókn og að taka ákvörðun um önnur viðbrögð.

Einnig taldi rannsóknarnefndin að Pétur Bürcher, núverandi biskup, sem tók við árið 2007, hefði í einu tilviki látið hjá líða að hafa frumkvæði að því að fram færi rannsókn í kjölfar þess að honum bárust upplýsingar um að aðili hafði sem barn sætt kynferðisofbeldi af hálfu látins prests.

Georg tók öll skjöl með sér þegar hann hætti

Kafli skýrslunnar um varðveislu skjala er fróðlegur, en nefndin segir að „nánast engin gögn um starfsemi Landakotsskóla“ hafi fundist. Séra Hjalti Þorkelsson, tók við starfi skólastjóra í Landakoti árið 2003 af séra Georg sem var skólastjóri á þeim tíma sem ásakanir nemenda beinast að. Hjalti segir að þegar hann tók við hafi engin gögn verið í skólanum.

Gijsen sagði rannsóknarnefndinni að hann hefði oftar en einu sinni beðið séra Georg að gæta að skjalaskráningu, en hann sagðist hafa ætlað að sinna því þegar hann kæmist á eftirlaun. Hjalti segir að segir að séra Georg hafi sagt sér að nauðsynleg gögn væru á skrifstofu skólastjóra, en önnur gögn ætti hann sjálfur og hefði tekið með sér. Hann ætli að flokka þau og skrá. Gijsen segist ekki vita hvað hafi orðið af þeim gögnum sem Georg tók með sér.

Hjalti segir að hann hafi skráð innkomin bréf og helstu gögn meðan hann var skólastjóri. Starfslok hans báru brátt að og hann segist engin gögn hafa tekið með sér við starfslok. Hann segist ekki vita hvers vegna engin göng finnist. Hjalti segir að þegar hann kom til að ná í tölvu sína, stuttu eftir að hann sagði upp störfum, hafi verið búið að eyða úr henni öllum gögnum.

Fram kemur í skýrslunni að eftir að séra Georg lést árið 2008 hafi ýmist gögn fundist í dánarbúi hans, sem hafi verið grófflokkuð í skjalasafni kirkjunnar.

Rannsóknarnefndin bendir á að skortur á skráningu skjala, sérstaklega þegar kemur að málum sem telja verður viðkvæm fyrir kirkjuna, sé fallinn til að ýta undir þá upplifun í samfélaginu að kirkjan hafi tilhneigingu til þess að þagga mál niður.

Kirkjan telur sig ekki þurfa að skrá skjöl um þessi mál

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að 17. október sl. barst nefndinni bréf frá lögmanni kaþólsku kirkjunnar þar sem hann segir að kirkjan hafni því að almenn skylda hvíli á kaþólsku kirkjunni, samkvæmt kirkjulögum, að skrá og varðveita upplýsingar um mál af því tagi sem hér ræði. Jafnframt kemur fram í bréfinu kaþólska kirkjan telji sig án nokkurs vafa uppfylla allar lagagreinar og lagaákvæði kirkjuréttar svo og landslaga um skráningu og meðferð gagna. Rannsóknarnefndin segist ekki geta fallist á þessa túlkun og telur ljóst að skráning og varðveisla gagna hafi verið ábótavant þann tíma sem rannsóknin tekur til.

Johannes Gijsen.
Johannes Gijsen.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert