Leituðu til læknis vegna andlegs ofbeldis

Margrét Muller
Margrét Muller

Dæmi eru um að nemendur sem voru í Landakotsskóla meðan séra George var skólastjóri skólans hafi leitað til læknis vegna andlegs ofbeldis sem þeir máttu þola í skólanum. Nemendur fóru grátandi úr tíma, voru kvíðnir, með höfuðverk, magaverk og jafnvel uppköst og magabólgur.

Í skýrslunni er að finna frásagnir fólks sem var í Landakotsskóla og mátti þola andlegt ofbeldi, fyrst og fremst af hálfu Margrétar Mullers, sem var kennari við skólann fram til ársins 2003. Eftirfarandi tilvitnun í skýrsluna er kannski lýsandi fyrir það sem sumir nemendur upplifðu: „Annar þessara tveggja viðmælenda greindi frá því að hafa leitað til læknis vegna streitu og líkamlegra einkenna og hafi læknirinn þá spurt að fyrra bragði hvort barnið væri í 3. bekk í Landakotsskóla hjá Margréti Muller. Hafi læknirinn sagt að þetta væri ekki fyrsta barnið úr bekk Margrétar sem hann hitti með slík kvíðaeinkenni.“

Í skýrslunni eru tekin saman nokkur lýsingarorð um Margréti sem höfð eru eftir viðmælendum rannsóknarnefndarinnar. Margrét er sögð hafa verið „ógeðfelld“, „grimm“, „klikkuð“, „geðveik“, „ónærgætin“, „illmenn“, „dyntótt“, „sálarmorðingi“ og „bölvuð skepna“.

Braut börnin niður í stað þess að veita þeim stuðning

Einn viðmælandi nefndarinnar lýsti Margréti með eftirfarandi hætti: „Margrét valdi sér börn til að níðast á af einstakri kostgæfni. Hún kortlagði veikleikana og nýtti sér þá. Í stað þess að veita þeim stuðning sem á honum þurftu að halda braut hún þessi börn niður. Ofbeldið átti sér margar birtingarmyndir. Börn voru höfð út undan. Hún valdi börn af handahófi í lok skóladags til að sitja eftir til að sæta refsingum fyrir engin afbrot. ... Hún notaði tímann til að niðurlægja okkur. Hæðast að námsgetu, klæðnaði, útliti eða heimilisaðstæðum. ... Stundum niðurlægði hún börnin framan við aðra á sérstakan hátt ... gerði þeim grikk en lét líta út fyrir að þau væru heimsk.“

Margir nemendur sögðu að Margrét hefði mismunað nemendum. Þeir sem voru í uppáhaldi hjá henni sögðu að það hefði heldur ekki alltaf verið auðvelt því erfitt hafi verið að standa undir kröfum hennar. Þetta hafi valdið þeim streitu. Ein stúlka, sem var í náðinni, greindi frá því að hún hefði látið bróður sinn kýla sig í magann í eitt sinn vegna þess að hún hafi ekki náð að ljúka heimaverkefni. Þetta hafi hún gert til að hún yrði veik og þyrfti ekki að fara í skólann.

Fyrrverandi starfsmenn skólans styðja frásagnir nemenda

Rannsóknarnefndin segir í skýrslunni að hafa þurfi í huga að langur tími sé liðinn frá því að atburðirnir áttu sér stað. Vitað sé að minni fólks geti versnað með tímanum og þessi langi tími geti valdið því að frásagnir geti verið ónákvæmar.

Það var ekki verkefni rannsóknarnefndarinnar að leggja mat á frásagnir þeirra sem komu fyrir nefndina. Nefndin bendir hins vegar á að margir viðmælendur hafi lýst ýmsum smáatriðum í tengslum við lýsingar sínar á sama veg. Í frásögnum ólíkra aðila hafi komið fram lýsingar á sömu eða sambærilegum atriðum. Lýsingar fyrrverandi starfsmanna Landakotsskóla séu einnig að mörgu leyti á sama veg og lýsingar fyrrverandi nemenda, nema að því undanskyldu að enginn sagðist hafa orðið vitni að kynferðislegu ofbeldi.

Margrét lét af störfum við skólann árið 2003 um leið og nýr skólastjóri tók við. Hún tók brottrekstrinum mjög illa og kvartaði til sér Georges sem reyndi að fá ákvörðuninni breytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert