Áhrif niðurdælingar talin hverfandi

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis er með til umfjöllunar þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og nýtingu orkusvæða, rammaáætlunina svonefndu. Óljóst er hvenær nefndaráliti verður skilað fyrir síðari umræðu á Alþingi eða hvort meirihluti sé fyrir tillögunni.

Óskað var eftir viðbótarumsögnum um rammaáætlunina og meðal þeirra sem skiluðu slíkri umsögn var Landsvirkjun. Þar er aðallega fjallað um Bjarnarflagsvirkjun en einnig virkjanir í neðri hluta Þjórsár, þar sem ítrekuð er afstaða í fyrri umsögn Landsvirkjunar um að virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár verði færðir aftur í virkjunarflokk.

Langt rannsóknarferli

Varðandi Bjarnarflagsvirkjun þá segir Landsvirkjun í sinni umsögn að samkvæmt þingsályktunartillögunni sé virkjunin sett í nýtingarflokk. Bent er á að langt ferli liggi að baki þróun fyrirhugaðra framkvæmda í Bjarnarflagi. Undirbúningurinn hófst árið 1992 og vinna vegna umhverfismats fyrir síðustu aldamót. Jarðhitarannsóknir á svæðinu ná enn lengra aftur, eða til byrjunar 7. áratugar 20. aldar.

Á grundvelli þeirra rannsókna gerði Landsvirkjun áætlun um 40 MW virkjun í Bjarnarflagi og lagði fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Eftir úrskurð Skipulagsstofnunar árið 2000 var ráðist í frekari rannsóknir, m.a. varðandi affall og hveravirkni. Á grunni nýrra gagna, eins og um stærð hitasvæðisins, voru lagðar fram áætlanir um 90 MW virkjun í tveimur áföngum.

Í umsögn sinni segist Landsvirkjun áforma „varfærna uppbyggingu“ á svæðinu með því að reisa fyrst 45 MW virkjun. Ákvörðun um 2. áfanga verði ekki tekin fyrr en fyrir liggi niðurstöður úr vöktun grunnvatns sem berst til Mývatns og vöktun á hveravirkni í Hverarönd og gufuuppstreymi í Jarðbaðshólum. Sú breyting hefur verið gerð á áformum um meðferð affallsvatns frá virkjuninni að förgun á yfirborði verður hætt og vatninu dælt niður fyrir botn Mývatns.

Fram hafa komið áhyggjur af áhrifum affallsvatnsins á volga jarðvatnsstrauma í Mývatn og áhrifum á lífríki vatnsins. Landvernd hefur þannig lýst miklum áhyggjum sínum og krafist þess að Landsvirkjun stöðvi framkvæmdir í Bjarnarflagi og að fram fari nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Góð reynsla af Kröflu

Einnig hafa komið fram áhyggjur af óvissu um áhrif niðurdælingar, með vísan til skjálftanna á Hellisheiði þegar Orkuveita Reykjavíkur dældi affallsvatni þar niður. Í umsögn Landsvirkjunar, sem undirrituð er af Herði Arnarsyni forstjóra, segir að með vísan til góðrar reynslu af niðurdælingu við Kröfluvirkjun sé óvissan um áhrif niðurdælingar talin hverfandi.

Hins vegar sé gert ráð fyrir svigrúmi til tilrauna áður en endanleg lausn verður valin. Í því sambandi sé mikilvægt að Landsvirkjun áformi varfærna uppbyggingu virkjunarinnar. Jafnframt er bent á það í viðbótarumsögn Landsvirkjunar að affallsvatn frá núverandi Bjarnarflagsvirkjun, sem hefur verið í rekstri frá árinu 1969, sé lítið brot af volgu innrennsli til Mývatns, innan við 1%, og ekki merkjanlegt í grunnvatninu hvort það hafi minnkað eða aukist.

„Í raun eru áhrifin þau að ástandið á innrennslinu færist í það horf sem var fyrir vinnslu í Bjarnarflagi en verður áfram undir áhrifum af umbrotum vegna Kröfluelda,“ segir í umsögn Landsvirkjunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert