RARIK hefur lokið við að leggja 35 kílómetra af dreifikerfi sínu í Mývatnssveit í jarðstreng. Ákvörðun um framkvæmdina var tekin eftir að loftlínan fór illa í ísingarveðri í september.
Eftir að línan eyðilagðist var straumi komið á bæi sveitarinnar með streng sem lagður var til bráðabirgða ofanjarðar. Ákveðið var að endurnýja ekki loftlínuna enda var á dagskrá RARIK að endurnýja hana með jarðstreng á næstu átta árum.
Óveðrið flýtti þessari áætlun. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir að línukerfið í Mývatnssveit sé yfir fimmtíu ára gamalt. Það hafi verið byggt á höndum og ekki allsstaðar hægt að koma tækjum að til viðgerða.