Séra George var mjög valdamikill

Landakotskirkja og Landakotsskóli.
Landakotskirkja og Landakotsskóli. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Vísbendingar eru um að biskupar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafi lítið sem ekkert skipt sér af málefnum Landakotsskóla og látið séra George, skólastjóra, nánast alfarið um rekstur hans. Séra George var mjög valdamikill innan kirkjunnar og naut trausts.

Rannsóknarnefnd kirkjunnar telur að sterk staða séra George, auk tíðarandans í samfélaginu og í kirkjunni, hafi dregið enn frekar úr líkum á að kvartað væri yfir því ofbeldi sem beitt var í skólanum og að á því að þær kvartanir sem þó bárust bæru árangur.

Fjórur báru um kynferðisofbeldi af hálfu séra George

Fjórir af 85 viðmælendum rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar sögðu frá kynferðisbrotum gegn sér af hálfu séra George og/eða Margrétar Muller. Flestar ásakanir beindust þó að andlegu ofbeldi af hálfu Margrétar, sem rannsóknarnefndinni var tjáð að hafi starfað undir verndarvæng séra George og lotið stjórn hans. Hún er sökuð um mismunun, harðneskju, vanrækslu og vanhæfni til að kenna börnum. Ásakanir af svipuðu tagi bárust einnig gegn séra George.

Ein kona og þrír karlar sögðu nefndinni frá ítrekuðu kynferðisofbeldi af hálfu séra George og/eða Margrétar. Í öllum tilfellum gerðu þolendurnir tilraunir til að segja frá og láta vita af brotunum gegn sér, en það var til lítils.

Reyndu að segja frá

Elsta tilfellið er mál konu sem lýsti fyrir nefndinni ítrekuðu ofbeldi af hálfu séra George á árunum 1960-1963. Þegar hún lauk námi við skólann 13 ára gömul sagði hún foreldrum sínum frá ofbeldinu. Faðir hennar fór þá rakleitt í Landakotsskóla, að því er talið er til fundar við Jóhannes Gunnarsson biskup, en ferðin reyndist erindisleysa. Honum var sagt að dóttir hans hefði fjörugt ímyndunarafl og þetta gæti ekki verið rétt.

Karlamaður sem séra George og Margrét beittu bæði ítrekað kynferðisofbeldi á árinum 1978-1983 gerði nokkrar tilraunir til að segja öðrum starfsmönnum kirkjunnar frá við skriftir. Þriðji karlmaðurinn var beittur kynferðisofbeldi af hálfu séra George á tímabilinu 1956-1958. Hann fór á fund biskups Jolson sem fullorðinn maður árið 1990 og vildi upplýsa um háttsemi séra George sem þá var enn skólastjóri. Biskup brást ekki við upplýsingunum að hans sögn. 

Beðinn um að gegna áfram trúnaðarstörfum

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er vikið að stöðu séra George í þessu samhengi. Hann var einn mjög fárra kirkjunnar manna sem hafði gott vald á íslensku og vísbendingar eru um að biskupar á Íslandi hafi þurft að reiða sig á hann vegna tungumálakunnáttunnar og þekkingar á starfsháttum. Staða hans var því sterk og skrifaði sem dæmi biskup Gijsen Páfagarði bréf árið 1998 og lagði til að séra George yrði veitt viðurkenning. 

Við lok starfsferils síns var séra George lofaður fyrir gott starf og beðinn um að gegna áfram trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna. Í bréfi til hans frá kirkjunni er komist svo að orði að Landakotsskóli hafi verið „heimur“ séra George og hann „faðir þeirrar fjölskyldu“. Þá voru sumarbúðir kirkjunnar reknar eftir hugmyndafræði séra George og Margrétar og kirkjuyfirvöld skiptu sér ekki af starfseminni.

Rannsóknarnefndin telur að sterk staða séra George hér á landi hafi verið til þess fallin að draga enn frekar úr líkum á því að einstaklingar kvörtuðu yfir ofbeldi, hvort tveggja var af hans hendi eða af hendi Margrétar. Einnig geti tíðarandinn í samfélaginu, og innan kaþólsku kirkjunnar, varpað nokkru ljósi á hvort búast megi við því að börn hafi sagt frá ofbeldisbrotum á þessum tíma og við hvers konar viðbrögðum þau máttu búast af hálfu kirkjunnar.

Landakotsskóli
Landakotsskóli mbl.is/Jim Smart
Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna kynnti skýrslu sína í Þjóðmenningarhúsinu í …
Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna kynnti skýrslu sína í Þjóðmenningarhúsinu í gær. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka