Slæmar aðstæður eru á Austurlandi og allir fjallvegir ófærir. Vegur er fær með ströndinni suður um en óveður er í Hamarsfirði og við Lómagnúp og sandrok á Skeiðarársandi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Vindur gengur heldur niður í kvöld og nótt einkum um landið norðan- og vestanvert. Ofankoma verður þó áfram norðaustantil, einkum austan Tröllaskaga, austur um á miðja Austfirði. Áfram má gera ráð fyrir hviðum allt að 35 m/s fram á kvöldið við Lómagnúp og í Hamarsfirði þar til í nótt eða jafnvel í fyrramálið.
Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku og í Borgarfirði. Á Snæfellsnesi eru hálkublettir á Fróðárheiði. Vetrarfærð er í Dölunum en vegir færir.
Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og á hálsunum í Barðastrandarsýslu en þungfært á Ennishálsi. Aðrar aðalleiðir á Vestfjörðum eru færar.
Á Norðurlandi er opið frá Brú og að Sauðárkróki um Þverárfjall. Þar fyrir austan er meira og minna ófært en byrjað verður að vinna snemma í fyrramálið.