„Það sem er feillinn í þessu er að þeir skyldu ekki blása þetta af í stað þess að tilkynna að þetta yrði á miðvikudaginn var,“ segir Matthildur Hermannsdóttir, fararstjóri um 40 íslenskra maraþonhlaupara sem staddir eru í New York og ætluðu að taka þátt í New York maraþoninu sem átti að fara fram á morgun en var aflýst vegna fellibyljarins Sandy sem hefur valdið miklum usla meðal annars í New Jersey og New York.
„Ég sit hérna á fararstjórafundi og bíð eftir að heyra hvað þeir ætla að bjóða hlaupurum upp á,“ segir Matthildur er mbl.is náði tali af henni síðdegis.
Matthildur segir að þau viti það eitt fyrir víst að það verði ekkert hlaup. Hún segir að það séu vonbrigði fyrir marga að maraþoninu sé aflýst, enda margir búnir að æfa mikið til að taka þátt. Skipuleggjendur hlaupsins gáfu það út á miðvikudag að ekki yrði hætt við maraþonið en vegna þrýstings víða að var ákveðið að hætta við það af ofangreindum ástæðum.
„Þátttökuskilyrði eru þannig að þú getur farið í gegnum kvóta sem að löndin hafa og það er þá bara mjög lítið. Síðan getur þú farið í lotterí og reynt að fá inn skráningu þannig. Svo ef þú ert elítu-hlaupari þá getur þú komið. Líka fyrir þá sem búa hérna í New York þá geta þeir áunnið sér leyfi til að sækja um skráningu með því að vinna sem sjálfboðaliði í hlaupum þannig að það er svolítið „system“ í kringum þetta,“ segir Matthildur spurð að því hvað þurfi til að fá að taka þátt. Hún segir rúmlega helming þátttakenda erlendis frá.
„Þetta er fyrsta skipti hjá lang flestum. Það eru nokkrir sem hafa farið áður í New York maraþon. Flestir eru að fara í fyrsta skipti í maraþonið og margt af þessu fólki er að fara í fyrsta skipti á ævinni í maraþon. Það er það erfiðasta því þetta fólk er búið að æfa sig í marga mánuði og hlakka til uppskeru,“ segir Matthildur og bætir við: „Það er yndislegt hlaupaveður. Svo fallegt og gott veður. Maður á erfitt með að skilja að einhversstaðar neðar á Manhattan, á Staten Island og New Jersey sé allt í klessu en hérna gengur allt sinn vanagang, nema ég hef aldrei séð jafn fáa á ferli. Það er miklu minni umferð en hefur verið undanfarin ár.“
„Núna erum við á 77. stræti. En frá 40. stræti fór aldrei neitt rafmagn. Ég er til dæmis á hóteli á 28. stræti og það er allt fínt þar í kring. En þegar við komum frá flugvellinum í gær þá keyrðum við í Soho [hverfið] og þar var traffíkinni stjórnað af lögreglumönnum sem voru með logandi kyndla við endann á gangbrautunum þannig að þetta var mjög sérstakt. Þá kannski sá maður þetta í meira samhengi með að lögreglan væri mjög upptekin í öðrum hlutum en að hugsa um hlaupara,“ sagði Matthildur.
Tengdar fréttir: