Fjölmargir íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt leið sína á þvottastöðvar og þvottaplön um helgina enda varla hægt að sjá út um bílrúður vegna sands og salts eftir óveðrið á föstudag.
Blaðamaður mbl.is beið í 45 mínútur eftir því að komast á þvottastöð Löðurs á Fiskislóð eftir hádegið í dag en alls voru 40 bílar í röðinni.
Eins eru húseigendur víða að þvo rúður húsa í dag í blíðunni því svipaða sögu er að segja af rúðum húsa eftir óveðrið á föstudag.
Veðurspá: Fremur hæg vestlæg átt og víða bjartviðri er víða um land en hvessir smám saman í kvöld og nótt og þykknar upp, suðvestan 8-15 m/s snemma í fyrramálið og rigning eða súld, en úrkomulítið A-lands. Snýst í norðan 8-15 seint á morgun með éljum fyrir norðan, en dregur úr vindi og vætu S-lands. Hlýnar smám saman, hiti 3 til 9 stig í fyrramálið, en kólnar aftur fyrir norðan seint á morgun, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.