Þegar veðrið var sem verst á föstudaginn mældist vindur á Geldinganesi mjög svipaður og á Kjalarnesi. Segja má því að veðuráhrifin af Esjunni hafi náð inn til sumra hverfa í Reykjavík.
Þegar veðrið var sem verst á föstudaginn var meðalvindur á Kjalarnesi og Geldinganesi um 38m/sek og í hviðum fór vindurinn upp í 50m/sek.
Haraldur Eiríksson veðurfræðingur segir að verðið hafi verið það vont að veðuráhrifin af Esjunni hafi náð til Reykjavíkur. Hann segir að þekkt sé að fjöll hafi mikil áhrif á vind og þess vegna geti orðið mjög hvasst í norðan- og norðaustanátt á Kjalarnesi, Snæfellsnesi, undir Eyjafjöllum, undir Vatnajökli og víðar.
Haraldur segir að Esjan skýli oft Reykvíkingum fyrir norðanátt, en á föstudaginn hafi verið svo hvasst að þessara áhrifa hafi ekki gætt. Jafnhvasst hafi verið á Geldinganesi og á Kjalarnesi. Það hafi því verið afar hvasst í Grafarvogi og víðar á höfuðborgarsvæðinu.
Mjög misjafnt var hversu hvasst var í Reykjavík á föstudaginn. T.d. sýndi veðurmælir á húsi Veðurstofunnar um 18m/sek og 30m/sek í hviðum. Haraldur segir að búið sé að byggja svo mikið af húsum í kringum Veðurstofuna og eins sé búið að gróðursetja svo mikið af trjám í nágrenninu að þessi mæling segi ekki nema hálfa sögu um það veður sem var í Reykjavík.
Spáð er rigningu á höfuðborgarsvæðinu í dag og á morgun. Búast má við snjókomu á suðausturlandi.