Óþægilegt að vera innilokaður

Fjarðarheiði varð aftur fær í gær.
Fjarðarheiði varð aftur fær í gær. mbl.is/Kristján

Í gær varð aftur fært yfir Fjarðarheiði en fram að því hafði heiðin verið ófær frá því sl. miðvikudagskvöld og þar af leiðandi höfðu Seyðfirðingar verið innilokaðir. „Þetta var óvenju langvarandi,“ segir Cecil Haraldsson, sóknarprestur á Seyðisfirði, í samtali við mbl.is.

„Ég neita því ekki, að svona tilfinningalega séð þá líður mönnum betur þegar þeir vita að þeir komast yfir heiðina,“ segir Cecil ennfremur.

Magnús Jóhannesson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Egilsstöðum, segir að staðan í dag sé ágæt. „Við erum búnir að ná að opna alla vegi. Vorum búnir að opna þetta á skikkanlegum tíma í gærmorgun,“ segir hann.

Aðspurður segir Magnús að Seyðfirðingar séu ávallt glaðir að sjá starfsmenn Vegagerðarinnar. „Það er enginn ánægður að vera innilokaður,“ bætir hann við.

Þurfti ekki að grípa til neyðarráðstafana

„Ég veit ekki um neinn stórskaða og ég held að það hafi ekkert komið upp á að neinn hafi lífsnauðsynlega þurft að fara [t.d. á sjúkrahús],“ segir Cecil.

Þá segir hann að það hafi ekki snjóað eins mikið í bænum og virðist hafa gert víða annarsstaðar. „Það var þó nóg til þess að það var þungfært um bæinn.“

Cecil segir að lögreglumaður, sem sé búsettur í bænum og sé á vel útbúnum bíl, hafi ásamt björgunarsveitarmönnum ekið um bæinn til að búa til för í götunum, en þetta gerðu þeir á meðan beðið var eftir moksturstækjum.

„Ég ætla að fullyrða að þeir [hjá Vegagerðinni] fóru að ryðja um leið og var nokkurt vit að gera það fyrst ekki þurfti að gera einhverjar neyðarráðstafanir,“ segir Cecil.

Magnús Jóhannesson tekur fram að frá því á miðvikudag og fram á laugardag hafi menn lítið getað mokað vegna veðurs, nema þá í næsta nágrenni við byggðir. Það var svo ekki fyrr en í gær sem menn gátu hafist handa við að ryðja fjallvegi því víða hafi verið bylur og vont veður.

Þá segir hann að nú sé færð á fjallvegum nokkuð góð. „Þetta er verst neðan til. Þegar þú ert kominn upp í 400 metra hæð þá er þetta strax skárra. Þegar það snjóar í litlu frosti, eða frostlausu veðri, þá er þetta bara þungur og blautur snjór niðri í byggð en uppi á fjallvegum er þetta þurrara og skafrenningur. Þá stoppar þetta miklu minna á vegunum,“ segir Magnús.

Vilja jarðgöng

Cecil segir að ófærðin hafi komið einna verst við þá Seyðfirðinga sem þurfi að sækja vinnu eða skóla annarsstaðar. T.d. starfsmenn álversins á Reyðarfirði, en Cecil segir að á þriðja tug starfsmanna álversins séu búsettir á Seyðisfirði. Þá hafði ófærðin einnig áhrif á daglegt líf ungmenna sem stunda nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Cecil veit ekki betur en að flest þeirra, ef ekki öll, hafi orðið veðurteppt á Seyðisfirði, þ.e. verið komin heim til sín áður en Fjarðarheiði varð ófær.

„Við erum umkringd fjöllum á alla vegu. Í vissum áttum þá er það þannig að við fáum allan snjóinn ofan af heiðinni þegar það er skafrenningur. Það hefur gerst að hér hafi allt verið á kafi og síðan hafi verið jafnvel hægt að keyra yfir heiðina. Eða alveg öfugt, að við fáum bara ofankomuna en ekki skafrenninginn,“ segir Cecil.

Hann segist ekki vita til þess að bæjarbúar hafi orðið uppiskroppa með helstu nauðsynjavörur á meðan þeir voru lokaðir inni. „Það voru einstaka vörutegundir sem voru búnar. Ég hef heyrt talað um það að brauðið væri búið og undarennan, en ég held að yfirleitt allar aðrar daglegar nauðsynjavörur hafi verið til,“ segir Cecil.

„Það er kominn vetur, svo einfalt er það. Þetta getur og hefur komið fyrir. Menn eru ekki að stóræsa yfir því nema þá þegar þeir þurfa að benda á að það hlýtur að fara koma að því að það komi jarðgögn,“ segir Cecil og bætir við að áhugi bæjarbúa á að fá göng minnki ekki þegar svona aðstæður skapist.

Aðspurður segir hann að aðstæður séu betri í dag. Þá er von er á ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar á morgun og útlit fyrir að allir geti komist klakklaust leiðar sinnar.

Það getur snjóað hressilega á Seyðisfirði. Myndin er úr safni.
Það getur snjóað hressilega á Seyðisfirði. Myndin er úr safni. mbl.is/Steinunn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert