„Það voru einhverjar viðræður á milli eins fulltrúa í meirihluta og minnihlutans. Ég veit ekki annað en að þær viðræður séu búnar og að þeim hafi lokið þannig að samkomulag náðist ekki,“ segir Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra.
Í sveitarstjórninni eru sjö fulltrúar, fjórir koma frá Á-lista og þrír frá D-lista.
Að sögn Guðfinnu átti Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, fulltrúi Á-lista í sveitarstjórn í viðræðum um að mynda nýjan meirihluta með fulltrúum D-listans í síðustu viku. Fólki Á-listans var ekki kunnugt um það fyrr en eftir á.
„Það er ekkert óeðlilegt að það séu þreifingar hjá fólki. En auðvitað er enginn meirihluti ánægður með að einhver úr þeirra röðum sé að hugsa um að færa sig til,“ segir Guðfinna. „En ég tel að niðurstaðan hafi orðið hjá Margréti, að vel athuguðu máli, að gera það ekki.“
Guðfinna segir Margréti hafa setið sveitarstjórnarfund í síðustu viku „eins og ekkert væri“.
Spurð að því hvaða áhrif þetta hafi á samstarfið innan Á-listans, segir hún of snemmt að svara því. „Við höldum bara áfram að vinna saman.“
Guðfinna segir meirihlutann hafa fengið „slæman arf“ frá fyrri meirihluta. Sveitarstjórinn, Gunnsteinn R. Ómarsson, hafi unnið þrekvirki við að koma fjárhagnum á rétt ról. „Hann hefur lyft grettistaki eftir óstjórn fyrrverandi meirihluta sem núna gerir atlögu til að ná völdum á ný og hrekja góðan starfsmann úr starfi.“
Ekki náðist í Margréti Ýrr Sigurgeirsdóttur við gerð fréttarinnar.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, oddviti minnihluta D-lista í sveitarstjórninni, segir viðræðurnar aldrei hafa komist á alvarlegt stig. „Þetta voru bara þreifingar og náðu aldrei mjög djúpt og við vorum ekki komin í neina málefnavinnu.“
Spurður að því hvort til hafi staðið að skipta um sveitarstjóra segir hann aðeins hafa verið minnst á það, en viðræðurnar hafi runnið út í sandinn áður en sú umræða komst á alvarlegt stig.