„Þetta er óheppilegt og virðist byggt á algjörum misskilningi á herferðinni sjálfri,“ segir Guðrún Birna Jörgensen, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu og umsjónarmaður herferðarinnar Ísland allt árið, um frétt sem birtist í bandaríska dagblaðinu USA Today í dag þess efnis að alvarlega væri í skoðun á Íslandi að skipta um nafn á landinu og þá ekki síst vegna bankahrunsins.
Fréttin er merkt blaðamanninum Halldóri Bachmann en eins og mbl.is fjallaði um í dag segir hann fréttina ekki vera eins og hún hafi farið frá honum til blaðsins í endanlegri útgáfu. Í fréttinni er vísað í samkeppni sem Íslandsstofa stóð fyrir í haust um það hvort annað nafn á Íslandi lýsti upplifun fólks, ekki síst erlendra ferðamanna, af landinu betur.
„Þetta er þvert á það sem okkur var tjáð að væri verið að skrifa um en Halldór kom hingað til okkar og tók viðtal við mig og fleiri. USA Today hafði einnig haft samband við Brooklyn Brothers sem er okkar almannatengslastofa í Bretlandi varðandi þetta mál þannig að þetta skýtur talsvert skökku við,“ segir Guðrún Birna.
Fylgjast grannt með málinu
Spurð að því hvort ekki geti reynst erfitt að leiðrétta svona rangan fréttaflutning segir Guðrún Birna svo vissulega vera. Fyrir vikið fylgist starfsfólk Íslandsstofu nú grannt með því hvort fréttin verði tekin upp af öðrum fjölmiðlum og hversu mikið verði úr málinu. Hún segir ennfremur aðspurð hvort Íslandsstofa muni senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins að það sé í skoðun.
„Við höfum ekki tekið ákvörðun um það hvort við sendum frá okkur yfirlýsingu vegna málsins en við ætlum að fylgjast með þróuninni í dag, hversu mikil áhrif þetta hefur og hvernig við þurfum þá að bregðast við því. Og við munum bregðast við því ef eitthvað slíkt fer að gerast,“ segir Guðrún Birna og bætir því við að henni hafi verið tjáð að fréttin í USA Today yrði á jákvæðu nótunum eins og átakið Ísland allt árið hefði fengið alls staðar annars staðar.
„Við vorum einungis að leita eftir þessari tilfinningu ferðamannanna fyrir því hvað landið stæði fyrir í huga þeirra og hafa svolítið gaman að því í leiðinni,“ segir hún að lokum.