Hjalti Vigfússon, formaður Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð, er samkynhneigður og má því ekki gefa blóð samkvæmt reglum Blóðbankans. Hann bað því ármann Menntaskólans við Sund, Andra Stein Hilmarsson, til að gefa blóð fyrir sína hönd nú í góðgerðarviku MH.
Andri tók bón Hjalta vel og gaf blóð.
Þessa dagana stendur yfir góðgerðarvika í MH og er nú safnað fyrir flóttabörn í Sýrlandi. Meðal þess sem gert var var að fá Blóðbankabílinn að skólanum svo nemendur gætu látið gott af sér leiða.
Hjalti segir að nemendafélagið hafi viljað vekja athygli á þessari einkennilegu reglu, að samkynhneigðir megi ekki gefa blóð en jafnframt að fá nemendur til að hugsa um blóðgjafir. Löngu sé orðið tímabært að afnema regluna sem ýti undir fordóma gagnvart samkynhneigðum.
„Ég vildi gefa blóð en má það ekki,“ segir Hjalti í samtali við mbl.is. Hann segir nemendur MH bíða í löngum röðum fyrir utan blóðbankabílinn í dag, svo áhuginn á blóðgjöf er greinilega fyrir hendi.
En hvað finnst ungu fólki um að samkynhneigðir megi ekki gefa blóð?
„Ég hef heyrt orðið fáránlegt mjög oft í dag,“ segir Hjalti. Hann segir að margir hafi heyrt um regluna en ekki farið að pæla í henni fyrr en í dag.