Það var fullmikið sagt að enginn hefði spáð norðanbálinu í september því vissulega spáði Veðurstofan slæmu veðri. Hins vegar var ekki gefin út alvarleg viðvörun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. „Það var engan veginn ætlun mín að gera lítið úr spám Veðurstofunnar fyrir þessa umræddu helgi, enda sagði ég í upphafsorðum mínum að spáð hefði verið stormi. Ummælin í lok umræðunnar kunna hins vegar að hafa verið misvísandi og biðst ég velvirðingar á því,“ segir Ögmundur.
Vegna umræðna sem orðið hafa í kjölfar orða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á Alþingi síðastliðinn þriðjudag í sérstakri umræðu um afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september vill ráðherra árétta eftirfarandi:
„Í upphafsræðu minni í umræðunni sagði ég meðal annars að Veðurstofan hafi þann 8. september varað við stormi 18-23m/s en gert ráð fyrir rigningu samhliða storminum. Ekki hafi verið gefnar út sérstakar viðvaranir og Veðurstofan hafði ekki samband við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra líkt og gert er þegar búist er við slæmu veðri. Alment virtist fáir gera ráð fyrir því að þetta veður gæti haft mikil áhrif. Reyndin hafi orðið önnur, veðurhæðin orðið heldur meiri, úrkoman orðið snjór og áhrifin afdrifarík.
Í lokaorðum kom þetta meðal annars fram: Staðreyndirnar eru þessar: Ofsaveður gekk yfir Norðurland í fyrri hluta september. Önnur staðreynd: Enginn spáði þessu fyrir, engin varnaðarorð voru gefin út. Strax og ljóst varð hvaða hætta var á ferðinni brugðust menn við. Ég vek athygli á frumkvæði sýslumannsembættisins á Húsavík í því efni. Um leið og almannavörnum bárust kallið var brugðist við.
Hér var fullmikið sagt að enginn hefði spáð þessu fyrir því vissulega spáði Veðurstofan slæmu veðri og gerði það allt fagmannlega eins og hún hefur minnt á. Hins vegar var ekki gefin út alvarleg viðvörun og ekki haft samband við Almannavarnir enda ekki spáð að veðurhæðin yrði slík að hafa þyrfti samband við Almannavarnir miðað við vinnureglur um slíkt.
Í framhaldi af þessu hefur Veðurstofan sagt að efla þyrfti og bæta tengslin milli Veðurstofu og Almannavarna og er það vel. Tek ég undir að fara þarf yfir verkferla og viðbragðsáætlanir og nýta lærdóminn frá þessu tilviki til að búa sig undir óvenjulegar aðstæður næst þegar þær ber að höndum.
Almannavarnir og Veðurstofan hafa þegar rætt saman og munu fara yfir þessa verkferla.
Ég ítreka að meðan óveðrið geisaði og þegar ljóst var orðið hver áhrif þess yrðu voru allir viðbragðsaðilar að verki: Lögregla, björgunarsveitir og almannavarnir og í framhaldinu fóru enn fleiri af stað svo sem viðgerðarflokkar rafveitna, mokstursflokkar Vegagerðar auk þeirrar ómældu vinnu sem björgunarsveitir inntu af hendi til að aðstoða bændur við fjárleit.
Það var engan veginn ætlun mín að gera lítið úr spám Veðurstofunnar fyrir þessa umræddu helgi, enda sagði ég í upphafsorðum mínum að spáð hefði verið stormi. Ummælin í lok umræðunnar kunna hins vegar að hafa verið misvísandi og biðst ég velvirðingar á því.“