„Virðingarleysið er algjört“

Þjófarnir spenntu upp glugga til að komast inn í húsið.
Þjófarnir spenntu upp glugga til að komast inn í húsið.

„Fyrst var ég náttúrlega í sjokki en er nú orðinn saltvondur yfir því að einhver skuli gera þetta; ryðjast inn á heimili manns, róta þar, ræna og rupla. Virðingarleysið er algjört,“ segir Baldur Gunnarsson sem í vikunni þurfti að þola innbrot þjófa á heimili sitt, og það um hábjartan dag.

Baldur býr ásamt fjölskyldu sinni í Vogum á Vatnsleysuströnd. Baldur var eins og eiginkona hans við vinnu á höfuðborgarsvæðinu, dóttir þeirra í menntaskóla í Reykjavík og sjö ára sonur í grunnskólanum í Vogum. Þegar hann svo kemur heim ásamt dóttur sinni síðdegis sér hann hvað gerst hefur.

Innbrotsþjófarnir spenntu upp glugga á svefnherbergi og komust þannig inn. „Það voru opnar skúffur víða og búið að róta í þeim, róta í öllum náttborðum og skápum í stofunni. Ekkert var þó skemmt nema þetta eina járn í glugganum.“

Af lýsingu Baldurs á aðkomunni að dæma er varla hægt að álykta sem svo að um fagmenn í faginu hafi verið að ræða. „Það var búið að tæma ruslapoka í eldhúsinu og annan sem var með tómum flöskum. Þá hefur því greinilega vantað poka undir góssið.“

Fartölva með óbætanlegum gögnum

Meðal þess sem þjófarnir tóku var fartölva dóttur Baldurs og með henni allar glósur úr skólanum, ljósmyndir og persónuleg skjöl. „Það er stærsta tjónið og alveg óbætanlegt því hún fær þessar glósur hvergi, og myndirnar hennar eru horfnar. Og tölvan var jólagjöf frá afa hennar í fyrra þannig að þetta er virkilega fúlt fyrir hana.

Svo komst hún að því að skartgripaskrínið hennar var einnig horfið með öllum hennar skartgripum sem hún hafði safnað að sér í gegnum árin.“

Auk þessa voru einnig teknar tvær leikjatölvur og myndbandsupptökuvél. „Og svo einhverjir fáránlegir hlutir eins og hleðslutæki fyrir síma.“

Eins og áður segir býr fjölskyldan í Vogum á Vatnsleysuströnd en íbúafjöldi þar er aðeins um tólf hundruð. En óprúttna aðila má greinilega finna hvarvetna. „Vogar eru auðvitað ekki stórt sveitarfélag og ef allt væri með felldu ætti það að vera til fyrirmyndar með svona hluti. En því miður virðist sem það sé komið upp eitthvert gengi í bænum,“ segir Baldur. Hann segir dæmi þess að brotist hafi verið inn í bíla og níðst á eldra fólki á elliheimilinu. „Böndin virðast alltaf berast að sömu mönnunum en ekkert gerist.“

Öryggismyndavélar og hreyfiskynjarar

Baldur ræddi við lögreglumann sem er á fastri vakt í sveitarfélaginu. Hann hafi virst þekkja vandamálið. „En auðvitað er þetta erfitt fyrir lögregluna, þeir eru undirmannaðir og það er einfaldlega búið að svelta löggæsluna í landinu. En ég ætla alla vega ekki að láta þetta gerast aftur hjá mér.

Ég er búinn að panta fjórar öryggismyndavélar utan á húsið og er að skoða mismunandi öryggiskerfi með hreyfiskynjurum til að koma fyrir inni í húsinu.“

Lögregla Suðurnesja er með málið í rannsókn og hefur enn ekki tekist að hafa hendur í hári þeirra brotlegu. Hafi einhver upplýsingar sem aðstoðað gætu lögregluna við að upplýsa málið er hinn sami beðinn að hringja í síma 420-1800.

Þjófarnri rótuðu í skúffum og skápum og stálu raftækjum.
Þjófarnri rótuðu í skúffum og skápum og stálu raftækjum. Þorvaldur Örn Kristmundsson
Málið er enn í rannsókn hjá lögreglu Suðurnesja.
Málið er enn í rannsókn hjá lögreglu Suðurnesja. Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka